Segir rannsókn Muellers á lokametrunum

Matthew Whitaker, starfandi dómsmálaráðherra, segist hafa verið upplýstur um rannókn …
Matthew Whitaker, starfandi dómsmálaráðherra, segist hafa verið upplýstur um rannókn Muellers og að henni sé við það að ljúka. AFP

Rannsókn Robert Muellers, sérstaks saksóknara bandarísku alríkislögreglunnar FBI í meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2018 og tengslum þeirra við framboð Donald Trumps Bandaríkjaforseta er nú á lokametrunum. Þetta hefur AFP-fréttaveitan eftir Matthew Whitaker, settum dómsmálaráðherra.

Mueller sjálfur og starfsfólk hans hafa lítið tjáð sig um rannsóknina til þessa og hafa raunar látið ákærur og dómskjöl tala sínu máli.

„Rannsókn Muellers er við það að verða lokið,“ sagði Whitaker á fundi með blaðamönnum. „Ég hef verið upplýstur um rannsóknina og hlakka til þess að Mueller afhendi lokaskýrsluna. Ég vona að við fáum rannsóknina frá Mueller hið fyrsta.“

Mueller mun afhenda Whitaker, sem var settur dómsmálaráðherra eftir að Jeff Sessions lét af störfum, skýrsluna hafi Bill Barr, sem Trump hefur tilnefnt sem arftaka Sessions, ekki hlotið staðfestingu þingsins.

„Ég er þess fullviss að það verður farið gaumgæfilega yfir niðurstöður skýrslu Muellers með þeim aðferðum sem við höfum,“ sagði Whitaker án þess að fara nánar út í hvað hann ætti við með orðum sínum.

Nokkrir ráðgjafar forsetans og lögfræðingur hans hafa þegar verið ákærðir í tengslum við rannsókn Muellers og hefur Trump, sem neitar alfarið öllum tengslum við rússneska ráðamenn, ítrekað vísað til rannsóknarinnar sem pólitískra nornaveiða.

mbl.is