Vilja DNA-sýni úr ættleiddum börnum

Stúlka frá Lýðveldinu Kongó. Mynd úr safni.
Stúlka frá Lýðveldinu Kongó. Mynd úr safni. AFP

Belgísk yfirvöld hafa óskað eftir DNA-sýnum úr börnum sem ættleidd voru frá Lýðveldinu Kongó til að sannreyna hvort líffræðilegir foreldrar þeirra séu enn á lífi.

BBC segir yfirvöld hafa sett sig í samband við foreldra 15 barna til að komast að því hvort börnunum hafi verið rænt. Belgískir fjölmiðlar hafa eftir embætti saksóknara að grunur leiki á að foreldrar barnanna hafi talið sig vera að senda þau í sumarbúðir í Kinhasa, höfuðborg Kongó, en ekki á munaðarleysingjahæli eins og raunin var.

Búið er að loka munaðarleysingjahælinu.

„Það er enginn sem græðir á þessu og dómari verður að ákvarða hvað kemur börnunum best,“ hefur BBC eftir þingmanninum Lorin Parys.

Þúsundir barna hafa verið ættleiddar frá Afríku undanfarin ár, m.a. frá Eþíópíu og Úganda. Áhyggjur af smygli á börnum frá Lýðveldinu Kongó ollu því hins vegar að bann var sett á ættleiðingar barna úr landi árið 2013. Nokkrar ættleiðingar sem þegar voru hafnar fengu þó að ganga í gegn.

BBC segir óvíða fleiri börn á munaðarleysingjahælum en í Kongó. Það kom þó í ljós árið 2017 að fjögur börn sem ættleidd voru til Belgíu höfðu ranglega verið sögð munaðarleysingjar. Börnin voru á aldrinum 2-4 ára þegar þau voru flutt frá Tumaini munaðarleysingjahælinu í Kinhasa til Belgíu.

Hópur belgískra blaðamanna hafði uppi á foreldrum barnanna, en þeir bjuggu í bæ um 850 km frá höfuðborginni. Foreldrarnir sögðu að börnunum hefði boðist að fara með æskulýðssamtökum í sumarbúðir en þau hefðu aldrei snúið heim á ný.

Frá því mál barnanna fjögurra kom upp hafa belgísk yfirvöld rannsakað fjölda ættleiðinga barna sem komu frá Tumaini-munaðarleysingjahælinu. Talið er að öll börnin 15 hafi komið til Belgíu á árabilinu 2013-2015.

Segir BBC belgísk yfirvöld telja sig hafa nokkuð sterkar vísbendingar um að foreldrar barnanna séu enn á lífi og að líkt og foreldrar hinna barnanna fjögurra hafi þau talið sig vera að senda börn sín í sumarbúðir.

„Þau eru á mismunandi aldri, en börnin sem eru búin að vera hér hvað styst eru samt búin að vera hér í þrjú og hálft ár og hafa því aðlagast,“ segir Parys.

„Foreldrarnir hafa ekki gert neitt rangt og vitaskuld eru foreldrarnir í Kongó ekki minna eyðilagðir yfir að hafa glatað börnum sínum vegna falskra fullyrðinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert