Notuðu kúbein til að stela mörgæsum

Dvergmörgæsir eru friðaðar á Nýja-Sjálandi. Þær eru minnstar allra mörgæsa, …
Dvergmörgæsir eru friðaðar á Nýja-Sjálandi. Þær eru minnstar allra mörgæsa, ekki nema 25 sm háar og vega 1 kg. Ljósmynd/Wikipedia.org

Þremur dvergmörgæsum var stolið úr holu sinni við Hawkes Bay á Nýja-Sjálandi og segja landverðir að sést hafi til tveggja manna nota kúbein til að losa steina frá holu mörgæsanna og svo krækja þeim upp úr holunni. Þeim til aðstoðar hafi svo verið kona sem lýsti þeim með vasaljósi.

Ein mörgæsanna drapst við þessar tilfæringar, en mennirnir höfðu hinar tvær með sér á brott.

Dvergmörgæsin er minnst allra mörgæsategunda, ekki nema 25 sm á hæð. Hún nýtur hún friðunar á Nýja-Sjálandi, þar sem þeim fer nú fækkandi.

BBC hefur eftir yfirvöldum að þau telji þjófnaðinn gefa til kynna einhvers konar smyglstarfsemi.

„Þetta veldur okkur virkilegum áhyggjum þar sem við teljum þetta ekki vera einsdæmi,“ sagði  Rod Hansen, hjá umhverfisverndarsviði Hawkes Bay.

„Strax næsta dag fundum við dauða mörgæs á floti í nágrenninu og svo virðist sem hún hafi drepist af völdum höfuðmeins.“

Ekki er vitað hvert var farið með fuglana, né heldur hefur tekist að bera kennsl á veiðiþjófana.

 „Litlu mörgæsirnar eru mjög viðkvæmar á þessum tíma. Þær skipta um ham á tímabilinu frá janúar fram í mars og dvelja þá í holum sínum til að vernda sig,“ sagði Hansen. „Þetta bendir til þess að veiðiþjófarnir hafi vitað nákvæmlega hvenær væri best að ráðast til atlögu gegn þeim.“

Brot á borð við mörgæsastuldinn geta varðað allt að tveggja ára fangelsi og sektargreiðslu að upphæð rúmar átta milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert