Sex drukknuðu á degi hverjum

AFP

Sex manneskjur dóu á hverjum degi í fyrra þegar þær reyndu að komast yfir Miðjarðarhafið til Evrópu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Alls létust eða hurfu 2.275 flóttamenn á leið sinni yfir Miðjarðarhafið í fyrra.

Á sama tíma hefur verið dregið úr björgunar- og leitaraðgerðum á Miðjarðarhafi sem hefur kostað fleiri mannslíf en annars væri og er leiðin yfir Miðjarðarhafið orðin sú hættulegasta í heimi. 

Ekki hafa jafn fáir flóttamenn komið til Evrópu og í fyrra í fimm ár en alls komu þangað 139.300 hælisleitendur. 

Að bjarga mannslífum á sjó er ekki valkostur. Þar á hvorki pólitík að skipta máli né stefna heldur skuldbindingar sem byggja á langri hefð, segir yfirmaður flóttamannamála hjá SÞ, Filippo Grandi. 

Hann segir að ef við hefðum yfir hugrekki og hugsjónum að ráða væri hægt enda á þessar hörmungar. Að virðing og mannslíf væru sett framar öðru og horft lengra fram í tímann þar sem skipulag og samstarf eru í forgrunni. 

Í skýrslu UNHCR er því lýst hvernig breytingar í stefnu ákveðinna ríkja varðandi móttöku hælisleitenda hafa valdið því að fólk hefur ekki komist að landi og hafi þurft að bíða dögum saman eftir heimild til þess á sjó. Björgunarskip og bátar og áhafnir þeirra þurfa að sætta sig hertar reglur varðandi heimildir til leitar og björgunaraðgerða.

AFP

Á leiðinni frá Líbýu til Evrópu deyr einn á hafi á móti hverjum 14 sem komast til hafnar í Evrópu. Þetta hlutfall hefur hækkað mjög frá því árið á undan. Þúsundir voru sendar aftur til Líbýu þar sem þeirra bíða erfiðar aðstæður í varðhaldi. 

Fyrir marga er það lokaskrefið á martraðarkenndu ferðalagi að stíga fæti sínum á evrópska jörð. Fólk sem hefur þurft að þola pyntingar, nauðganir og kynferðislegt ofbeldi. Að búa við ógn um að vera rænt og haldið gegn kröfu um lausnargjald. Ríki verða að grípa til aðgerða til að uppræta smyglhringi og dæma þá sem taka þátt í þessum glæpum.

Í fyrsta skipti í mörg ár komu flestir flóttamenn til Spánar en alls komu 54.800 sjóleiðina þangað. 23.400 flóttamenn komu til Ítalíu sem eru fimm sinnum færri en árið á undan og til Grikklands komu 32.500 manns sem er svipaður fjöldi og árið á undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert