Sjö ríki koma fólkinu til bjargar

Fólkið var um borð í þessum gúmmíbát þegar því var …
Fólkið var um borð í þessum gúmmíbát þegar því var komið til bjargar 19. janúar. AFP

Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, segir að björgunarskip Sea Watch fái að koma að landi þar sem sjö lönd hafa samþykkt að taka við 47 flóttamönnum sem eru um borð í skipinu. Fólkinu var bjargað úr sjávarháska á Miðjarðarhafi fyrir tæpum tveimur vikum. 

Í fyrra drukknuðu sex flóttamenn á degi hverjum á flótta yfir Miðjarðarhafið, samkvæmt nýrri skýrslu frá Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna.

AFP

Að sögn Conte hefur Lúxemborg bæst í hóp þeirra ríkja sem hafa samþykkt að taka við hluta hópsins auk Ítalíu, Frakklands, Þýskalands, Portúgals, Rúmeníu og Möltu.

Conte segir að fólkið fái að koma í land á Sikiley síðar í dag en hart hefur verið deilt um málið á Ítalíu. Innanríkisráðherra landsins, Matteo Salvini, hefur lagst gegn því að flóttafólk fái að koma að landi á Ítalíu að minnsta kosti nema önnur Evrópuríki veiti aðstoð við að taka á móti flóttafólki.

AFP

Þýsku mannúðarsamtökin Sea Watch lögðu fram ósk um að fá flýtimeðferð fyrir Mannréttindadómstól Evrópu vegna málsins. Málið var höfðað gegn Ítalíu og synjun stjórnvalda um að björgunarskipið fengi að koma til hafnar. Fólkið er frá ríkjum sunnan Sahara og var þeim bjargað 19. janúar. Sea Watch 3 siglir undir hollenskum fána og hefur verið í vari við Sikiley vegna óveðurs.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert