Trump segir Coats að setjast á skólabekk

Donald Trump Bandaríkjaforseti er ósáttur við skýrslu njósnastofnanna landsins um …
Donald Trump Bandaríkjaforseti er ósáttur við skýrslu njósnastofnanna landsins um öryggismál. AFP

Njósnastofnanir Bandaríkjanna eru að mati Donald Trump Bandaríkjaforseta „barnalegar“ og hafa rangt fyrir sér varðandi mat sitt á hverskonar hættu Bandaríkjunum stafi af Íran.

„Varist Íran. Kannski njósnastofnanirnar þurfi að setjast aftur á skólabekk,“ skrifaði forsetinn á uppáhaldssamfélagsmiðli sínum Twitter.

Orðin lét Trump falla eftir að gefin var út skýrsla bandarískra njósnastofnana þar sem fram kemur að Íranar séu ekki að framleiða kjarnavopn. Þá segir einnig í skýrslunni að ráðamenn í Norður-Kóreu séu ólíklegir til að láta alfarið af hendi vopnabirgðir sínar eða hæfni til að framleiða kjarnorkuvopn.

Dan Coats, yf­ir­maður banda­rísku leyniþjón­ustu­stofn­an­anna, kynnti skýrsluna fyrir njósnanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í gær.

Bandaríkin sögðu sig í fyrra frá alþjóðlegu kjarnorkusamkomulagi við Íran, sem undirritað var 2015 og sættu mikilla gagnrýni alþjóðasamfélagsins fyrir. Þá hefur Trump undanfarin misseri lagt vinnu í að bæta samskiptin við Norður-Kóreu og átti m.a. fund með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, í Singapúr í sumar til að ræða afvopnavæðingu kjarnavopna á Kóreuskaga. Fullyrti Trump að fundi loknum að með honum hefði verið bundinn endi á kjarnavopnaógnina í Norður-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert