Út að moka þrisvar á dag í -30 gráðum

Anna Birna Fossberg og Elmar, sem verður fjögurra ára eftir …
Anna Birna Fossberg og Elmar, sem verður fjögurra ára eftir viku, dúða sig upp og hlaupa yfir í næsta hús til að hlýja sér yfir heitu kakói með nágrönnunum. -30 gráða frost hefur verið í Grand Rapids, þar sem þau búa, og víðar í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna síðustu daga. Ljósmynd/Aðsend

Þriðja morguninn í röð hóf Anna Birna Fossberg daginn á því að kappklæða sig og fara út að moka snjó úr innkeyrslunni við heimili fjölskyldunnar í Grand Rapids í Michigan í 19 gráða frosti.

„Veturinn kom með hvelli. Þegar við vöknuðum á mánudagsmorgun var snjór yfir öllu og skólum var lokað,“ segir Anna Birna í samtali við mbl.is, sem flutti til Grand Rapids í júní ásamt eiginmanni sínum, Herði Má Kolbeinssyni og syni þeirra Elmari.

Þetta er því fyrsti veturinn sem fjölskyldan upplifir í borginni og segir Anna Birna að þau hafi búið sig undir snjóinn en ekki fimbulkuldann sem herjar nú á Miðvesturríki Bandaríkjanna. Veðurfræðingar telja að ástandið komist í sögubækurnar en búist er við að næstu daga nái frostið allt að -30° í, en með vind­kæl­ingu jafn­gild­ir það því að frostið fari niður í -50 °C. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Michigan, Wisconsin og Illinois, sem og Alabama og Missisippi þar sem veðurfar er venjulega öllu mildara.

„Þetta er mjög óvanalegt, sérstaklega að skólar loki marga daga í röð. Það er reyndar ekki eins kalt hjá okkur og í Iowa, það er -19 gráður núna og með vindkælingu -30,“ segir Anna Birna, sem hefur verið heima síðustu daga ásamt Elmari þar sem leikskólinn hans er lokaður. 

Snjóað hefur stanslaust í Grand Rapids í Michigan frá því …
Snjóað hefur stanslaust í Grand Rapids í Michigan frá því á mánudag. Elmar hefur því haft í nægu að snúast við aðstoða móður sína við snjómokstur. Ljósmynd/Aðsend

Hörður er í sérnámi í almennum skurðlækningum í borginni og hefur spítalinn gert þær ráðstafanir að bóka hótel fyrir starfsfólk komist það ekki heim vegna kuldans, en fjölda vega hefur verið lokað, ýmist vegna færðar eða umferðaróhappa. Hörður hefur náð að komast til og frá vinnu en vinnudagarnir eru óvenjulangir hjá honum þessa dagana enda margir sem leita á spítalann.

Anna Birna og Elmar hafa líka í nægu að snúast heima fyrir, en þau þurfa til dæmis að fara reglulega út að moka, annars getur fjölskyldan átt von á sekt frá borginni. Anna Birna segist aldrei hafa upplifað jafn mikil snjóþyngsli, þrátt fyrir að vera ýmsu vön frá Íslandi, sérstaklega þar sem hún á rætur að rekja til Akureyrar.

„Það er búið að snjóa „non-stop“ frá því á mánudag og ég er búin að fara út að moka þrisvar á dag. Við vöknum og förum út að moka, svo komum við inn og horfum kannski á eina bíómynd og förum svo aftur út að moka. Fáum okkur hádegismat, leggjum okkur, vöknum og förum svo aftur út að moka. Það er 100 dollara sekt ef maður mokar ekki, en ég held að það gildi reyndar ekki í dag þar sem það er svo kalt,“ segir hún, en gert er ráð fyrir að frostið nái hámarki í dag.  

Borgaryfirvöld geta sektað heimili um 100 dollara ef snjómokstri er …
Borgaryfirvöld geta sektað heimili um 100 dollara ef snjómokstri er ekki sinnt og hefur Anna Birna því sinnt mokstrinum samviskusamlega síðustu daga. Ljósmynd/Aðsend

Yfirvöld hafa samt sem áður hvatt fólk til að vera ekki ut­an­dyra að ástæðulausu og sé ekki lengur úti en í tíu til fimmtán mínútur í senn.

„En ef maður klæðir sig vel þá er þetta allt í góðu,“ segir Anna Birna. Nágrannarnir hafa sömuleiðis þurft að halda sig heima og hafa mæðginin nýtt tækifærið og fengið sér kaffi og heitt kakó með vinafólki í næstu húsum.  „Við hlaupum bara á milli vel dúðuð.“

Snjóinn má nýta í ýmislegt, til dæmis listaverk.
Snjóinn má nýta í ýmislegt, til dæmis listaverk. Ljósmynd/Aðsend

Anna Birna segir að annars gangi lífið sinn vanagang og að fjölskyldan sé ekki búin að gera sérstakar ráðstafanir. „Við byrgðum okkur bara upp af eldivið og afþreyingu.“

En hefur fjölskyldan heima á Íslandi áhyggjur af þeim í þessum mikla kulda?

„Mjög miklar,“ segir Anna Birna og hlær. „Þau segja okkur að vera bara inni og ekki gera neitt. En þetta er ævintýri og við eigum eftir að muna eftir þessu alla tíð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert