Síminn dó við -28 gráður

Sæluhúsið Rabothytta snúið klakaböndum á sunnudaginn í 28 stiga frosti …
Sæluhúsið Rabothytta snúið klakaböndum á sunnudaginn í 28 stiga frosti í 1.200 metra hæð yfir sjávarmáli á Helgeland í Nordland-fylki. Ljósmynd/ Eirik Grønning/Úr einkasafni

„Ég rétt náði að smella af þessari mynd áður en síminn dó í kuldanum,“ segir Eirik Grønning, íbúi í Bjerka í Nordland-fylki í Noregi, í samtali við mbl.is en umræðuefnið er býsna kuldaleg mynd sem hann tók af sæluhúsinu Rabothytta í sveitarfélaginu Hemnes á Helgeland þar í fylkinu á sunnudaginn og birst hefur á norskum netmiðlum síðustu daga.

Grønning er mikill útivistarmaður og göngugarpur og lætur nokkrar mínusgráður ekki hindra för sína um fjöll og firnindi en sæluhúsið, sem Ferðafélag Hemnes (n. Hemnes turistforening) rekur, er í 1.200 metra hæð yfir sjávarmáli og eitt af 500 sæluhúsum innan vébanda Ferðafélags Noregs.

„Þessi gönguferð var farin á sunnudaginn í nístingskulda, það voru -28 gráður við sæluhúsið en þangað var förinni einmitt heitið,“ segir Grønning og útskýrir staðsetningu sæluhússins, sem býður upp á 30 svefnpláss og er opið árið um kring. „Þetta er rétt neðan við Okstindbreen [áttunda stærsta jökul Noregs] og Oksskolten sem er hæsti fjallstindur Norður-Noregs, 1.916 metra hár,“ segir Grønning.

Ekki margir sem komast þetta í janúar

„Eftir þrjá tíma og rúma mílu [norsk míla er tíu kílómetrar] á gönguskíðum reis sæluhúsið upp við sjóndeildarhringinn og leit ótrúlega tignarlega út. Mér finnst ég eiginlega heppinn að hafa upplifað þetta, þeir eru ekki margir sem komast á þessar slóðir í janúarkuldanum,“ segir Grønning og á við þá sýn sem blasti við honum, Rabothytta snúin klakaböndum við skafheiðum himni.

Nafn sæluhússins hljómar líklega ekki mjög skandinavískt en það er nefnt eftir franska landfræðingnum og fjallgöngumanninum Charles Rabot sem fyrstur gerði landakort af nokkrum svæðum á Helgeland á ofanverðri 19. öld. 

Hér má sjá Rabothytta og næsta nágrenni við örlítið „sumarlegri“ …
Hér má sjá Rabothytta og næsta nágrenni við örlítið „sumarlegri“ aðstæður en það er Sebastian, sex ára gamall sonur Grønning, sem stendur í forgrunni. Snáðinn sá vílar ekki fyrir sér að ganga á fjöll með föður sínum árið um kring og kann hvergi betur við sig en undir berum himni. Ljósmynd/Eirik Grønning/Úr einkasafni

 

Grønning segir frá því að á sumrin megi komast akandi nær helming leiðarinnar að sæluhúsinu þar sem þá sé akvegur inn Leirskardalen fær, en sá sé með öllu ófær á vetrum. „Það er ekki á færi margra annarra en þeirra sem vanir eru útivist að vetrarlagi að komast að Rabothytta um þetta leyti árs,“ segir Grønning sem er fæddur og uppalinn í Hemnes og nýtir að eigin sögn nánast allan sinn frítíma í gönguferðir og útivist en til að hafa í sig og á setur hann upp rennihurðir í iðnaðarbyggingum og hefur gert í áratug á vegum fyrirtækisins Windsor Door AS sem á sér bækistöðvar á Helgeland.

40 stiga frost og hús rýmd vegna snjóflóðahættu

Mínustölurnar á mælinum hafa verið háar í nyrstu fylkjum Noregs síðustu vikuna en í Karasjok í Finnmörku mældist 40,3 stiga frost á mánudaginn. Óopinberar tölur sem fólk las af hitamælum á heimilum sínum gengu þó enn neðar og var greint frá allt að 44,3 stiga frosti á heimamælum. Ófremdarástand hefur ríkt á vegum í Lofoten vegna fannfergis og á þriðjudagsmorgun voru 150 hús í Vestvågøy og Flakstad rýmd vegna snjóflóðahættu.

„Veturinn kom nú ekki hérna fyrr en undir lok desember eftir leiðindaveður í allt haust,“ segir Grønning, inntur eftir því hvernig veturinn hafi leikið íbúa Nordland-fylkis það sem af er en íbúar nyrstu fylkja Noregs kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að veðri enda býðst búendum í Finnmörku og nyrðri hluta Troms-fylkis sérstakur skattaafsláttur fyrir að búa þar, svokallaður Finnmerkurafsláttur (n. Finnmarksfradrag). „Við fengum hálfs metra djúpan snjó um daginn sem kom nú aðallega niðri í byggð, uppi á fjalli er þetta allt glerhart og blásið,“ segir útivistarmaðurinn norðlenski að skilnaði og fagnar greinilega fönn og fínu skíðafæri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert