Segir fjölskyldu sinni hótað

Guaido ávarpar fjöldafund í háskóla í Caracas í dag.
Guaido ávarpar fjöldafund í háskóla í Caracas í dag. AFP

Juan Guaidó, sem lýst hefur sjálfan sig réttmætan forseta Venesúela, sagði í dag að öryggissveitir lögreglu hefðu komið á heimili hans í leit að eiginkonu hans. Greint er frá þessu á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.

„Akkúrat núna eru öryggissveitir á heimili mínu að spyrja eftir Fabiönu,“ sagði Guaidó á fjöldafundi í háskóla í höfuðborginni Caracas í dag.

„Einræðisstjórnin telur að hún muni hræða okkur. Ég fékk þessar upplýsingar áður en ég kom hingað. En ég byrjaði ekki á að tala um þetta. Ég byrjaði á því að tala um áætlun fyrir alla íbúa Venesúela,“ sagði Guaidó meðal annars í ávarpi sínu.

Hann ræddi einnig um endurreisn opinberrar þjónustu á fjöldafundinum í dag og aðgerðir til þess að bregðast við mannúðarvandanum í landinu.

Evrópuþingið hvetur aðildarríki til að styðja Guaidó

Evrópuþingið samþykkti í dag ályktun þess efnis að viðurkenna ætti Guaidó sem réttmætan forseta Venesúela, þar til boðað yrði til kosninga í landinu. Evrópuþingið fetar þannig í fótspor Bandaríkjanna og þó nokkurra annarra ríkja sem styðja Guaidó, en þó skal taka fram að þessi ákvörðun Evrópþingsins er ekki bindandi yfir Evrópusambandið né aðildarríki þess.

Rússland, Kína og Mexíkó eru á meðal ríkja sem hafa lýst yfir stuðningi við sitjandi forseta, Nicolás Maduro, en forsetinn nýtur stuðnings hersveita landsins.

Guaido svarar spurningum fjölmiðla ásamt fjölskyldu sinni á heimili sínu …
Guaido svarar spurningum fjölmiðla ásamt fjölskyldu sinni á heimili sínu í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert