Trump: Tímasóun að ræða múrinn

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir tímasóun að ræða landamæramúrinn við demókrata ...
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir tímasóun að ræða landamæramúrinn við demókrata á þingi. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti gefur lítið fyrir rannsókn Robert Muellers, sérstaks saksóknara bandarísku alríkislögreglunnar FBI, og sagði viðræður við demókrata um múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó „tímasóun“. Trump lét þessi orð falla í viðtali við New York Times.

Sagði Trump í viðtalinu að viðræður við Bandaríkjaþing um fjármögnun fyrir múrgerðina væru „tímasóun“, en deila þings og forseta um fjármögnun múrsins leiddi nýlega til lengstu lokana ríkisstofnana í sögu landsins,

Þá fullyrti forsetinn að lögfræðingar hans hefðu fullvissað sig um að hann væri ekki skotspónn Robert Muellers í rannsókn FBI á meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016 og tengslum þeirra við framboð Trumps.

BBC segir New York Times birta viðtalið eftir að forsetinn setti sig í samband við útgefanda blaðsins. Trump hefur áður gagnrýnt blaðið og sagt því vera að mistakast, en útgefandi þess gagnrýndi forsetann í fyrra og sagði árásir hans á fjölmiðla geta leitt til ofbeldis í garð blaðamanna.

„Ég mun halda áfram að reisa múrinn og við munum ljúka gerð hans,“ sagði Trump í viðtalinu og hafnaði því að áframhaldandi viðræður gætu leyst deiluna við þingið. Þess í stað gaf hann í skyn að hann gæti lýst yfir neyðarástandi til að tryggja fjármagn til framkvæmdanna.

Trump hefur krafist þess að þingið samþykki að gert verði ráð fyrir 5,7 milljörðum Bandaríkjadala í framkvæmdirnar á fjárlögum. Demókratar á Bandaríkjaþingi hafa hins vegar neitað að samþykkja slíka fjárveitingu og segja múrinn vera óskilvirkan og brjóta gegn siðferði.

Telur Pelosi gera landinu ógagn

Trump gagnrýndi demókratann og forseta fulltrúadeildar þingsins, Nancy Pelosi, í viðtalinu.

„Mér hefur alltaf samið vel við hana, en ég held að það eigi ekki við lengur,“ sagði forsetinn. „Ég tel hana vera að gera landinu verulegt ógagn.“

Pelosi greindi fjölmiðlum frá því í gær að ekki sé gert ráð fyrir fjármagni til múrsins í lagafrumvarpi um landamæraöryggi sem nú er í vinnslu.

Þá kvaðst Trump hafa fengið loforð frá Rod Rosenstein, sem hafði yfirumsjón með rannsókn Muellers, áður en settum dómsmálaráðherra Matthew Whitaker var fengið verkefnið. „Hann sagði lögfræðingunum að ég væri ekki viðfangsefnið. Ég er ekki skotmarkið,“ sagði Trump.

Fullyrti hann enn fremur að hann hefði aldrei rætt við fyrrverandi ráðgjafa sinn og félaga til margra ára, Roger Stone, um tölvupóstana sem stolið var frá Demókrataflokknum 2016 og þeir birtir á Wikileaks. Stone er í hópi þeirra sem ákærðir hafa verið í tengslum við rannsókn Muellers og tengist kæran gegn honum stolnu tölvupóstunum.

mbl.is
Ítalskur 2ja sæta svartur leðursófi 100þ
Upprunalegt verð 223.000 kr. Sími 690 6344...
Íbúð til leigu.
4ra herb með bílskúr og sér bílastæði til leigu að Arahólum., 111 Rvík. Laus 1...
Þreyttur á geymslu- ólykt í ferðavagni.
Eyðir flestri ólykt. Ertu búinn að sækja bílinn úr vetrargeymslu, er ólykt í bíl...
Patrol 2006
Til sölu Nissan Patrol 2006 ekinn 186.000. Einn eigandi, gott viðhald, skoðaður ...