Corbyn aldrei verið óvinsælli

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins. AFP

Vinsældir Jeremy Corbyn, leiðtoga breska Verkamannaflokksins, hafa aldrei verið minni samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að ástæðan sé að mati sérfræðinga sú að kjósendur telja að hann sé að nálgast fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu fyrst og fremst út frá pólitík.

Þannig telji margir breskir kjósendur að Corbyn sé eingöngu að hugsa um það hvernig hann og flokkur hans geti hagnast á útgöngumálinu pólitískt en ekki með hagsmuni bresku þjóðarinnar í huga. Honum sé því ekki treystandi.

Vinsældir Corbyns hafa verið á niðurleið frá því að þær náðu hámarki um mitt árs 2017 í kjölfar síðustu þingkosninga í Bretlandi. Minnkandi vinsældir eru meðal annars sagðar stafa af því að hann hefur ekki sett fram skýra útgöngustefnu.

Skoðanakönnunin sem gerð var af fyrirtækinu YouGov bendir til þess að margir kjósendur teldu hann veikan leiðtoga, óákveðinn og ekki í tengslum við almenning. 

Jafn margir voru ósáttir við Corbyn árið 2017 og sáttir við hann. Samkvæmt könnuninni nú eru vinsældir hans -45 þar sem 67% eru ósátt við hann en 22% sáttir við hann. Fyrri könnun sýndi hann með -42. Theresa May, forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins, er samkvæmt nýju könnuninni með -28. 

Haft er eftir Chris Curtis, sérfræðingi hjá YouGov, að þeir sem væru hættir að styðja Corbyn hefðu í landflestum tilfellum nefnt útgönguna úr Evrópusambandinu sem ástæðuna fyrir því. Verkamannaflokkurinn hafi reynt að finna milliveg á milli þeirra sem vildu vera áfram í sambandinu og yfirgefa en sú stefna hafi reynst skaðleg fyrir flokkinn.

mbl.is