Sagður hafa nauðgað ungum stúlkum

Dómshúsið í Brooklyn í New York þar sem réttarhöldin fóru …
Dómshúsið í Brooklyn í New York þar sem réttarhöldin fóru fram. AFP

Vitni í dómsmáli í Bandaríkjunum gegn mexíkóska eiturlyfjabaróninum Joaquin „El Chapo“ Guzman greindi bandarískum yfirvöldum frá því að hann hefði byrlað ungum stúlkum niður í þrettán ára aldur lyf og nauðgað þeim. Þetta kemur fram í gögnum í tengslum við málið sem gerð voru opinber í gær samkvæmt frétt AFP.

Fram kemur í fréttinni að fyrrverandi samstarfsmaður Guzmans, Alex Cifuentes, hafi sagt að kona ein hafi sent eiturlyfjabaróninum myndir af ungum stúlkum til þess að hann gæti valið á milli þeirra. Hann hafi greitt 5 þúsund dollara fyrir hverja stúlku. Cifuentes sagðist sjálfur hafa gert slíkt hið sama þrisvar eða fjórum sinnum. 

Cifuentes sagðist enn fremur hafa hjálpað Guzman við að byrla stúlkunum lyf áður en þeim hafi verið nauðgað. Hins vegar minntist Cifuentes ekkert á þetta við sjálf réttarhöldin sem lauk á fimmtudaginn eftir að hafa staðið yfir í þrjá mánuði. Lögmaður Guzmans, Eduardo Balarezo, hefur vísað ásökunum Cifuentes á bug.

Sagði lögmaðurinn að óheppilegt væri að umrædd gögn væru gerð opinber rétt áður en kviðdómur kæmi saman til þess að ákveða hvort hinn 61 árs gamli Guzman væri sekur eða saklaus. Gögnin voru gerð opinber í kjölfar þess að fjölmiðlar í Bandaríkjunum fóru fram á það með vísan í bandarísk lög.

Kviðdómurinn mun hittast á mánudaginn en Guzman er ákærður fyrir að hafa smyglað hundruðum tonna af eiturlyfjum til Bandaríkjanna. Verði Guzman sakfelldur á hann yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. 

Cifuentes, sem er kólumbískur ríkisborgari, var handtekinn í Mexíkó árið 2013 og framseldur til Bandaríkjanna. Hann situr í fangelsi og hefur unnið með bandarískum yfirvöldum gegn því að fangelsisdómur hans verði styttur.

Eiturlyfjabaróninn Joaquin „El Chapo“ Guzman í haldi lögreglunnar.
Eiturlyfjabaróninn Joaquin „El Chapo“ Guzman í haldi lögreglunnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert