Kanada veitir aðstoð til Venesúela

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, flytur opnunarræðu á tíunda fundi Lima-hópsins …
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, flytur opnunarræðu á tíunda fundi Lima-hópsins sem fór fram í Kanada í dag. AFP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, kynnti í dag áform kanadískra stjórnvalda um að leggja til 53 milljónir Kanadadollara í mannúðaraðstoð til Venesúela.

„Í dag rennur Kanada blóðið til skyldunnar og tilkynnir um 53 milljóna dala framlag til mest þurfandi íbúa í Venesúela,“ sagði hann á fundi með fulltrúum Lima-hópsins en í hópnum eiga sæti fulltrúar 14 ríkja, flestir frá Suður-Ameríku, og var hópurinn stofnaður í þeim tilgangi að finna farsæla lausn á krísunni í Venesúela.

„Megnið af aðstoðinni rennur til traustra samstarfsaðila og nágrannaríkja til að hjálpa þeim við stuðning við Venesúela og íbúa landsins,“ sagði hann.

Lima-hópurinn fundaði í dag til að ræða hvernig mætti styðja við Juan Guaido stjórnarandstöðuleiðtoga sem hefur lýst því yfir að hann sé starfandi forseti Venesúela.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Helga Schmid, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, tóku þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.

Trudeau talaði við Guaido í síma í gær og ræddu þeir mikilvægi þess að koma á frjálsum og sanngjörnum forsetakosningum í Venesúela og sammæltust um ólögmæti þesss að Maduro sæti á forsetastóli landsins.

Aðild að Lima-hópnum eiga Argentína, Brasilía, Kanada, Síle, Kólumbía, Kosta Ríka, Gvatemala, Hondúras, Mexíkó, Panama, Paragvæ, Perú, Gvæjana og Sankti Lúsía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert