Útilokar ekki borgarastyrjöld

Forseti Venesúela, Nicolás Maduro, segir að hann geti ekki útilokað möguleikann á að borgarastyrjöld brjótist út. Þetta segir hann á sama tíma og þrýstingur á afsögn hans eykst. 

Í sjónvarpsviðtali varaði hann við því að ef Donald Trump hefði afskipti af landinu yfirgæfi hann Hvíta húsið ataður blóði. Hann hafnaði einnig kröfu Evrópusambandsins um að boða til forsetakosninga í landinu.

Juan Guaidó lýsti sig forseta Venesúela í síðasta mánuði en hann nýtur stuðnings Bandaríkjanna og fleiri ríkja. Hann ætlar að fá aðstoð annarra ríkja við að koma neyðarðastoð til bágstaddra í Venesúela en Maduro sakar hann um að vera að undirbúa valdarán.

Talið er að forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, muni í dag tilkynna um að ríkisstjórn Spánar viðurkenni Guaidó sem forseta Venesúela en þegar hafa sjö ríki ESB gert það. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert