Neðansjávaraðgerð hjá vél Sala í bígerð

Mynd frá AAIB sýnir brak vélarinnar á hafsbotni.
Mynd frá AAIB sýnir brak vélarinnar á hafsbotni. AFP

Undirbúningur stendur yfir hjá bresku flugslysarannsóknarnefndinni (AAIB) fyrir aðgerðir neðansjávar þar sem brak flugvélarinnar sem flutti Emiliano Sala fannst á sunnudag. AFP greinir frá.

„Rannsókn slyssins er enn í gangi og við erum að safna sönnunargögnum,“ hefur AFP eftir talsmanni AAIB. Spurður hvort tilraun yrði gerð til að ná braki vélarinnar og líkinu sem fannst í brakinu af hafsbotni svaraði talsmaðurinn því einungis til að aðgerð færi fram neðansjávar á næstu dögum.

David Mearns sem fann brakið á sunnudag segir mikilvægt að yfirvöld reyni að bjarga brakinu og líkinu sem allra fyrst. „Tíminn er lykilatriði þegar þú ert að tala um lík. Það er mikilvægt að björgun vélarinnar og líksins verði hraðað eins og hægt er,“ segir Mearns í samtali við AFP.

Hann var ráðinn af fjölskyldu Sala til þess að leita að braki vélarinnar eftir að hún hvarf af ratsjám 21. janúar með argentínska knattspyrnumanninn um borð. Fjölskylda Sala stóð fyrir söfnun til þess að fjármagna leitaraðgerðirnar og hafa safnast yfir 370 þúsund evrur. 4.800 hafa lagt söfnuninni lið, þar á meðal knattspyrnustjörnur.

„Að finna flugvélina var bara byrjunin, núna þarf AAIB að rannsaka slysið,“ segir Mearns sem segir það skelfilegt fyrir fjölskyldur Sala og flugmannsins verði lík þeirra ekki sótt og ekki upplýst um hvernig slysið bar að.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert