Verða að ljúka þróun nýrra eldflauga 2020

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, með forsetanum Vladimír Pútín.
Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, með forsetanum Vladimír Pútín. AFP

Rússar verða að ná að framleiða nýtt eldflaugakerfi á næstu tveimur árum. Þetta sagði Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, á fundi með embættismönnum í varnarmálaráðuneytinu í dag, en Rússland og Bandaríkin hafa bæði sagt sig frá kjarnorkuvopnasamkomulagi sem gert var milli ríkjanna árið 1987 á tím­um kalda stríðsins.

Bandarísk stjórnvöld hafa ítrekað sakað Rússa um að brjóta gegn samningnum sem meinar ríkjunum að þróa eld­flaug­ar með drægni á bil­inu 500 til 5.500 kíló­metrar og skotið er af landi.

Síðastliðinn föstudag tilkynnti Donald Trump Bandaríkjaforseti svo, að Bandaríkin myndu innan sex mánaða hefja ferli við að segja sig frá samningnum.

Daginn eftir tilkynnti Vladimír Pútín Rússlandsforseti að Rússar segðu sig einnig frá samningnum og að þeir myndu hefja vinnu við þróun nýrrar gerðar vopna sem brytu gegn samningnum.

Hafa sérfræðingar varað við því að nýtt vopnakapphlaup kunni að vera í uppsiglingu.

Á árabilinu 2019-2020 verðum við að þróa landútgáfu af Kalibr-skipakerfinu með langdrægar flaugar sem hafa reynst vel í Sýrlandi,“ sagði Shoigu á fundi með embættismönnum í varnarmálaráðuneytinu.

„Á þessum sama tíma verðum við líka að ljúka við að þróa eldflaugakerfi með hljóðfráum langdrægum eldflaugum fyrir notkun á landi.“

Sagði Shoigu Pútín þegar hafa lagt blessun sína yfir áætlunina.

mbl.is