„Fólk er að deyja eins og flugur“

Juan E. Martínez Badillo er liðlega þrítugur kvikmyndagerðarmaður í Venesúela, ...
Juan E. Martínez Badillo er liðlega þrítugur kvikmyndagerðarmaður í Venesúela, sem kom til Íslands sem skiptinemi fyrir röskum áratug. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Ég væri hræddur ef þú ætlaðir ekki að skrifa þetta á íslensku,“ segir Juan E. Martínez Badillo, kvikmyndagerðarmaður í Venesúela og fyrrverandi nemandi við Menntaskólann á Egilsstöðum.

Í viðtali við mbl.is lýsir hann daglegu lífi sínu í Venesúela, gjörspilltri og vanhæfri stjórn Maduro forseta og von sinni um að brátt fái þegnar landsins að upplifa raunverulegt lýðræði.

Juan var skiptinemi hérlendis skólaveturinn 2006-07 í gegnum AFS-skiptinemasamtökin og segir að Ísland og þá sér í lagi Egilsstaðir og Fellabær á Fljótsdalshéraði, verði alltaf í hjarta hans. Hann er líka með íslensku setninguna „Lifðu lífinu lifandi“ húðflúraða yfir brjóstið og ljóst að dvölin á Héraði var honum minnisstæð.

„Ég hugsa um að koma aftur á hverjum degi,“ segir Juan í samtali við blaðamann, sem tók eftir færslum sem hann setti fram á Twitter í morgun.

Þar mótmælti Juan orðum Íslendings, sem lýsti sig mótfallinn yfirlýsingu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um stuðning íslenskra stjórnvalda við Juan Guaidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela. Hann segist aldrei hafa upplifað það sem kalla mætti „eðlilegt líf“ á fullorðinsárum sínum, nema þegar hann var við nám á Íslandi.

Juan segist þreyttur á því að útlendingar, sem skilji ekki stöðuna í ríkinu og hafi ekki reynt alvarlegar efnahagsþrengingar, spillingu og skort á eigin skinni, séu að lýsa yfir stuðningi við stjórn Maduros, arftaka Hugo Chavez, sósíalistaleiðtogans sem var við völd í ríkinu frá 1998 og fram til dánardags árið 2013.

Internet-störf og peningagjafir haldi fólki á floti

„Venesúela er statt á mjög slæmum stað efnahagslega. Lágmarkslaunastarf stendur ekki undir framfærslukostnaði,“ segir Juan, sem sjálfur er ekki með fasta vinnu, að eigin sögn þar sem hann hefur mun meira út úr því að vinna sjálfstætt að verkefnum tengdum kvikmyndagerð, sem hann verður sér úti um á netinu.

Hann fær greitt í Bandaríkjadölum, sem hann selur svo á svörtum markaði, þar sem allt annað og betra verð fæst fyrir erlenda gjaldmiðla en ef skipt er við stjórnvöld.

„Ef þú færð dollara, þá getur þú selt þá á svarta markaðnum og orðið þér úti um góðan pening. Bólívarinn, gjaldmiðillinn okkar, er algjörlega verðlaus. Svo fólk vinnur á netinu og það er meira og minna þannig sem allir eru að komast af, eða með því að fá dollara senda frá ættingjum erlendis.“

Venesúelabúar hafa flúið land unnvörpum undanfarin ár. Þessi mynd er ...
Venesúelabúar hafa flúið land unnvörpum undanfarin ár. Þessi mynd er frá landamærum Venesúela og Kólumbíu í gær. AFP

Juan rekur fyrir blaðamanni hvernig fjöldi stúlkna og kvenna í Venesúela séu komnar yfir í kynlífsiðnaðinn, vegna efnahagsþrenginganna í ríkinu. Það gefi betur af sér en mörg góð störf á almennum vinnumarkaði.

„Stelpur selja nektarmyndir og eru í vefmyndavélum þar sem þær geta fengið mun betri pening fyrir kynlífsvinnu yfir netið en fyrir venjulega vinnu. Þetta er mjög sorgleg staða,“ segir Juan.

Þrjár máltíðir á þremur dögum

Yfir þrjár milljónir manna hafa flúið frá Venesúela á undanförnum árum til nágrannaríkja landsins og er um að ræða stærstu flóttamannabylgju sem hefur nokkru sinni átt sér stað í Suður-Ameríku. Matarskortur og skortur á ýmsum öðrum nauðsynjum hefur verið viðvarandi og ríkisstjórn Maduros hefur frá árinu 2016 skammtað landsmönnum niðurgreidda matarpakka í gegn um svokallað CLAP-prógram, sem þó hefur verið umdeilt, en mannréttindasamtök í ríkinu sökuðu stjórnvöld um að útiloka gagnrýnendur stjórnvalda frá matarskömmtunum, eins og Washington Post fjallaði um.

Juan segist ekki hafa lagt sig eftir þessum matargjöfum, og segist efins um þær. „Það kom út könnun í fyrra sem sýndi fram á að maturinn í þessum pökkum væri mjög lélegur. Fólkið er ekki að fá góða næringu, svo þetta er bara leið stjórnvalda til þess að sýna umheiminum að þau séu að gera eitthvað fyrir fátæka fólkið og bæta ímynd sína erlendis. En maturinn er ömurlegur og fólk er enn að svelta, þrátt fyrir að fá þetta.“

Juan er líklega eini Venesúelabúinn sem er með íslenska setningu ...
Juan er líklega eini Venesúelabúinn sem er með íslenska setningu húðflúraða á bringuna. Ljósmynd/Úr einkasafni

Af samtali við Juan fékk blaðamaður á tilfinninguna að viðmælandinn hefði það kannski töluvert betra en þeir sem starfa á lágmarkslaunum í landinu. Hann hefur jú menntun og hæfileika sem gera honum kleift að fá erlendar tekjur í gegnum netið með því að sinna verkefnum í kvikmyndagerð og fær auk þess fjárhagsstuðning frá bróður sínum, sem býr erlendis.

„Ég býst við því. En ekki mikið betra,“ sagði Juan, spurður beint hvort hann teldi sig í betri stöðu en þá samlanda sína sem hafa það verst. „Í síðustu viku borðaði ég bara eina máltíð þrjá daga í röð, þar sem bróðir minn sendir bara pening einu sinni í mánuði. Sumt fólk hefur það eflaust verra, en ég get ekki sagt að ég sé í þægilegri stöðu,“ segir Juan.

Þjófar stálu netköplunum

Juan býr í borginni Maracaibo í norðvesturhluta Venesúela. Um er að ræða næststærstu borg landsins og þar búa rúmar tvær milljónir manna. Borgin er skammt frá landamærum Venesúela og Kólumbíu og það segir Juan að útskýri það að heimili hans sé án nettengingar þessa dagana.

Blaðamaður áttar sig ekki alveg á því hvernig nálægð við landamæri útskýri netleysi heimilisins, en Juan útskýrir málið og segir að þjófar steli öllu sem eitthvað er hægt að fá fyrir handan landamæranna. Þess á meðal er kopar, sem finna má í netköplum á svæðinu og veldur það því að Juan þarf oft og iðulega að sætta sig við viðvarandi netleysi.

„Börn byltingarinnar“ lifi í allsnægtum

„Þeir einu sem hafa það gott eru þeir sem eru tengdir stjórnvöldum og stjórna öllum peningunum í landinu. Ég var að lesa grein í gær um „börn byltingarinnar“, börn ráðamanna sem búa erlendis og hafa það gott, keyra um í dýrum bílum og halda stór partý,“ segir Juan og vísar til umfjöllunar í breska blaðinu Daily Mail, sem birtist í gær.

Þar kemur meðal annars fram að Maria Gabriela, elsta dóttir Hugo Chavez, sé talin eiga 4 milljarða dollara á bankareikningum í Evrópu og að stjúpsynir Maduro forseta, Yoswal og Walter, hafi eytt 45.000 dollurum á átján dögum á Ritz-hótelinu í París í fyrra.

Þá var einnig eftirminnilega fjallað um málsverð Maduros á Nusr-Et steikhúsinu í Tyrklandi í september í fyrra, þar sem forsetinn gæddi sér á steik í boði tyrkneska kokksins Nusret Gökçe, sem er betur þekktur sem Salt Bae.


Juan segir að þetta gefi raunsanna mynd af stöðunni í landinu, þeir sem séu tengdir sósíalistastjórninni hafi allt til alls en allur almenningur hafi það slæmt, þó að fólk hafi það misslæmt.

Átökin 2002 vendipunktur hjá stjórn Chavez

Það hefur verið mikið fjallað um Venesúela í fjölmiðlum á alþjóðavísu vegna efnahagshörmunganna, skortsins og stjórnmálaátakanna sem hafa verið í landinu undanfarin ár. En hver er sagan á bak við þetta allt? Af hverju er staðan svona?

Blaðamaður bað Juan um að fara yfir það, hvernig staðan liti út fyrir honum, sem ungum manni í landinu. Hvar beygði Venesúela, ríkasta land veraldar af olíuauðlindum, af leið?

Juan segist sjálfur rekja það til stjórnmálaátaka og í raun valdaránstilraunar, sem forkólfar olíuiðnaðarins í Venesúela stóðu fyrir gegn Hugo Chavez árið 2002. Hann segir að stjórnendur Petrelos de Venezuela, ríkisolíufélagins, hafi verið óánægðir með stjórnunarhætti Chavez.

„Þetta fólk var vel menntað fólk sem þoldi ekki Chavez og það sem hann stóð fyrir, ofbeldisfulla valdboðsstjórn. Þau mótmæltu og sögðust ekki ætla að starfa fyrir hann og hann rak þúsundir manna [frá Petrelos] og kom sínum eigin stuðningsmönnum að,“ segir Juan.

Hugo Chavez á veggmynd í Caracas, höfuðborg Venesúela.
Hugo Chavez á veggmynd í Caracas, höfuðborg Venesúela. AFP

Eftir þetta segir Juan að Chavez hafi orðið „ofsóknaróður“ og stressaður um eigin valdastöðu og byrjað að gera kröfur um hollustu allra ríkisstarfsmanna við ríkisstjórn sína. „Honum tókst að taka yfir alla anga stjórnarinnar. Hann kom sínu fólki alls staðar,“ segir Juan og segir hann að dómstólar, her og lögregla hafi að öllu leyti lotið valdi Chavez-stjórnarinnar.

Fjölmiðlar ófrjálsir

Síðan hófst aðförin að tjáningarfrelsinu, en Freedom House, sem mælir fjölmiðlafrelsi á alþjóðavísu, hefur skilgreint Venesúela sem „ófrjálst“ er kemur að fjölmiðlun frá árinu 2003.

„Þegar ég var á Íslandi árið 2007 lokuðu stjórnvöld stærstu sjónvarpstöðinni, RCTV,“ segir Juan. Það segir hann að hafi ekki vakið neina athygli út fyrir landsteinana, en ríkisstjórn Chavez neitaði stöðinni um áframhaldandi útsendingarleyfi.

„Ég var í sjokki. Ég trúði ekki að þeir hefðu lokað stærstu stöðinni í Venesúela, sem var mótfallin Chavez og að enginn væri að tala um það,“ segir hann og bætir við að í dag sé staðan sú að meginstraumsfjölmiðlar í Venesúela séu nær allir hliðhollir stjórnvöldum, eða í það minnsta ekki gagnrýnir á stjórn Maduros.

Með aukinni útbreiðslu netsins hefur þó aðgengi að upplýsingum batnað og Juan segir að í landinu hafi ekki verið takmarkanir á netfrelsi, sem geri landsmönnum kleift að afla sér frétta um stöðuna í ríkinu erlendis frá.

Vanhæft fólk í helstu stöðum

Juan segir að Venesúela hafi gengið nokkuð vel undir stjórn Chavez á fyrstu árum aldarinnar, þar sem að hækkandi olíuverð hafi skýlt stjórnvöldum frá skaðlegum afleiðingum þess að ráða inn í æðstu stöður ríkisins – og ríkisolíufélagins - á forsendum stuðnings við sósíalistastjórnina fremur en hæfni.

Hann segir að dregið hafi úr skilvirkni olíuframleiðslunnar, þar sem yfirstjórnin hjá Petrolas hafi hafi verið vanhæf.

Nicolas Maduro forseti ávarpar þjóð sína í sjónvarpi í gær.
Nicolas Maduro forseti ávarpar þjóð sína í sjónvarpi í gær. AFP

Á þessu tímabili varð ríkið líka sífellt aðsópsmeira í stjórn matvælaframleiðslu í landinu og árið 2005 undirritaði Chavez til dæmis forsetatilskipun um að stórum bújörðum í einkaeigu yrði skipt upp og útdeilt til fátækra í sveitum landsins.

Þegar olíuverðið féll svo skarpt í alþjóðafjármálakreppunni árið 2008, féll Venesúela líka, að sögn Juan.

Eða öllu heldur blekkingarleikur stjórnvalda, sem höfðu getað flutt inn mikið magn af nytjavörum handa almenningi fyrir olíupeningana, og þar með var enginn mikið að velta því fyrir sér að framleiðsla á vörum innanlands hafði dregist gríðarlega saman vegna aðgerða stjórnvalda.

„Er olíuverðið var hátt gat ríkisstjórnin flutt inn vörur, en þegar olíuverðið hrundi hrundi innflutningurinn líka. Þegar olíuverðið hrapaði varð það öllum ljóst að ríkið var ekki jafn vel rekið og fólk hélt. Það varð strax skortur, á nánast öllu sem þú getur hugsað þér. Það vantaði baunir, hrísgrjón, mjólk, kjúkling, jafnvel klósettpappír,“ segir Juan.

Þetta var árin 2008 og 2009. „Síðan þá hefur þetta bara orðið verra, verra og verra,“ segir Juan.

Spilling í handónýtu raforkukerfinu

Hann segir vanhæfni stjórnenda og spillingu varðandi virkjanaframkvæmdir og -viðhald hafa valdið því að raforkukerfi landsins sé í algjörum lamasessi, en í Venesúela er meirihluti raforku framleiddur með endurnýjanlegri vatnsorku, nær alfarið í Caroní-ánni í austurhluta landsins.

„Í gær var ég án rafmagns frá því klukkan 13 til 16 síðdegis og svo frá 23 í gærkvöldi til 4 í nótt. Rafmagnið fer af á hverjum degi,“ segir Juan sem rekur vandann í raforkukerfinu til spillingar, sérstaklega hjá fyrirtæki sem nefnist Derwick Associates. Ítreka má að Juan býr ekki í neinu afdalaþorpi, heldur í Maracaibo, næststærstu borg landsins.

Lauflétt netleit blaðamanns skilaði ýmsum niðurstöðum sem styðja við mál Juan, meðal annars verðlaunaðri umfjöllun venesúelska dagblaðsins Ultimas Noticias frá árinu 2011, sem leiddi í ljós að Derwick Associates hefði ekki neina reynslu af því að byggja stíflur, þegar ríkisstjórnin gerði samning við fyrirtækið um stíflugerð.

Morð og mannrán orðin tíðari

Juan segir að öryggi þegna í ríkinu hafi versnað til muna á síðustu árum, því þegar fólk geti ekki lengur treyst á launavinnu til þess að brauðfæða fjölskyldur sínar, aukist það að örvæntingarfullt fólk gerist ræningar, mannræningjar, jafnvel tilræðismenn!

„Þetta varð svo slæmt að ríkisstjórnin hætti að birta tölur um hve margir létust með ofbeldisfullum hætti í hverjum mánuði. Þetta var bara orðið fáránlegt,“ segir Juan og bætir við að talið sé að yfir 20.000 manns hafi verið myrt í landinu á síðasta ári.

Samkvæmt Amnesty International er þessi tala talin enn hærri, en yfirvöld gefa upp.

Heilbrigðiskerfið í lamasessi

Þá eru opinberu spítalarnir í krísu. „Læknar hafa engin tól til þess að meðhöndla fólk. Það eru bara ógeðslega dýrar læknastofur sem geta eitthvað gert fyrir fólk. Þær eru bara nokkrar í Caracas, ein hér [í Maracaibo] og nokkrar í öðrum borgum. Fólk er að deyja eins og flugur úr einföldum, meðhöndlanlegum sjúkdómum,“ segir Juan.

Heilbrigðisstarfsmenn á Háskólasjúkrahúsinu í Caracas mótmæla ráðandi stjórnvöldum og krefjast ...
Heilbrigðisstarfsmenn á Háskólasjúkrahúsinu í Caracas mótmæla ráðandi stjórnvöldum og krefjast sjúkragagna, 30. janúar síðastlinn. AFP

Fjallað var ítarlega um stöðuna í heilsuverndarmálum í Venesúela í aðsendri grein sérfræðings í mannréttindamálum hjá Human Rights Watch og læknisfræðiprófessors hjá John Hopkins-háskóla í Washington Post í haust.

Þar kom meðal annars fram að Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna telji að á árunum 2015-2017 hafi 11,7% af íbúum Venesúela verið vannærðir – yfir 3,7 milljónir manna. Þá hafa bólusetningar algjörlega hrapað og meðferð ýmissa vel viðráðanlegra sjúkdóma orðið erfiðari. Meðal annars hafa 87% HIV-smitaðra í Venesúela ekki fengið meðferð við hæfi, til þess að halda sjúkdómnum niðri.

Juan segir að sjálfur viti hann til þess að rafmagnsleysi á spítölum hafi valdið því að nýfædd börn, sem þarfnist meðhöndlunar, hafi látið lífið.

„Ég hata Trump en hann er að breyta rétt“

Ríki heims hafa skipst í fylkingar, sem styðja annaðhvort Juan Guaidó og kröfuna um frjálsar kosningar í ríkinu eða Nicolas Maduro, sitjandi forseta. Juan er ekki í vafa um að Venesúela þurfi að losna við Maduro og stjórn hans sem allra fyrst og er vongóður um að það takist.

Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela og forseti þingsins.
Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela og forseti þingsins. AFP

Hann segir óþolandi, eins og áður hefur verið minnst á, þegar að Vesturlandabúar tali gegn kröfu um kosningar og neiti að styðja Juan Guaidó. Hann segir staðreyndina vera þá að Guaidó hafi verið kosinn í lýðræðislegum kosningum, sem leiðtogi stjórnarandstöðunnar á þingi í lok árs 2015.

Maduro hafi hins vegar rutt réttkjörnu þingi úr vegi, stofnað nýtt löggjafarþing með stuðningsmönnum sínum og endurnýjað umboð sitt á forsetastóli með algjörlega ómarktækum kosningum árið 2018.

„Honum er skítsama um stjórnarskrá Venesúela,“ segir Juan um forsetann og segir hann ekki njóta stuðnings þjóðarinnar og vísar því til stuðnings til skoðanakönnunar í argentínska fjölmiðlinum Perfil, sem sýndi að 81% Venesúelabúa vildu að Maduro segði af sér.

Bandaríkjamenn hafa verið leiðandi í því að styðja við Guaidó sem réttmætan forseta til bráðabirgða í ríkinu og það segir Juan vera rétta ákvörðun, þrátt fyrir vafasama sögu Bandaríkjanna er kemur að afskiptum í stjórnmálum annarra ríkja – ekki síst í Suður-Ameríku.

„Ég hata Trump, hann er rasískur djöfull, en hann er að breyta rétt í Venesúela,“ segir Juan, sem er nokkuð vongóður um að núna, með alþjóðlegri pressu, verði hægt að koma vanhæfum og spilltum stjórnvöldum landsins frá.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er að breyta rétt með því að ...
Donald Trump Bandaríkjaforseti er að breyta rétt með því að krefjast þess að Maduro boði til frjálsra kosninga, segir Juan. AFP

„Guaidó hefur verið falin stjórn yfir fjárráðum ríkisins erlendis, meðal annars í Bandaríkjunum og í Bretlandi. Það er leiðin til þess að taka niður einræðisstjórnina, því þeir eyða miklum peningum í að borga fyrir hollustu. Ef þeir komast ekki lengur í peningana, geta þeir ekki lengur greitt fyrir að halda völdum. Þeir borga mörgum í hernum og þegar þú stöðvar fjárstreymið til þeirra þá mun ekki líða langur tími þar til þeir snúast gegn honum. Þeir eru ekki hollir honum, heldur peningunum,“ útskýrir Juan og bætir við að það gefi honum von um að betri tímar séu fram undan í landinu.

Verstu sögurnar koma út seinna

„Það er svo margt sem ég talaði ekki við þig um í þessu samtali,“ bætir Juan við í Facebook-skilaboðum til blaðamanns eftir um það bil klukkustundarlangt símaviðtal.

Hann segist til dæmis ekki hafa treyst sér til að tala neitt um ofbeldi af hálfu hers og lögreglu landsins og segir að hann myndi vera hræddur um það sem fram kemur hér í þessu viðtali, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að ólíklegt sé að þessi blaðagrein nái mikilli útbreiðslu alþjóðlega, þar sem hún er skrifuð á örtungumáli.

„Það munu birtast sögur eftir sögur þegar þessu er öllu lokið,“ segir Juan.

Stuðningsmenn Maduro forseta koma saman á fjöldafundi í Caracas 2. ...
Stuðningsmenn Maduro forseta koma saman á fjöldafundi í Caracas 2. febrúar síðastliðinn. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Hefur þú áhuga á því að ganga til liðs
Hefur þú áhuga á því að ganga til liðs við Musteris Riddara Bræðralagsreglu (Kni...
KERRUR _ KERRUR _ KERRUR
Þessar sterku Þýsku frá ANSSEMS & HULCO, til afgreiðslu strax, sjá myndir m.a. í...
Vatnshitarar fyrir sumarhús.
Ýmsar gerðir af vatnshiturum 3300w til 21000w fyrir sumarhús, þessi búnaður er f...
HARMONIKKUHURÐIR SPARA MIKIÐ PLÁSS
Margar viðartegundir og litir, smíðað eftir máli. Verð frá kr. 13.900,- Sími 6...