Loka á komu hjálpargagna til Venesúela

Hermenn í Venesúela hafa lokað aðkomu að brú á landamærum Venesúela og Kólumbíu til að fyrirbyggja að hjálpargögn berist til landsins.

Það var Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðu Venesúela sem skipaði sjálfan sig í síðasta mánuði forseta til bráðabirgða, sem óskaði eftir aðstoðinni. Nicolas Maduro, sem sór embættiseið sem forseti landsins í síðasta mánuði, hefur hins vegar hafnað því að hjálpargögnunum verði hleypt inn í landið.

Guaidó, sem jafnframt er forseti þjóðþingsins, segir stjórnarskrá landsins gera sér kleift að taka sér forsetavald sé forsetinn metinn ólögmætur, en lögmæti forsetakosninganna sem Maduro fór með sigur í síðasta sumar er  umdeilt.

Guaidó hefur nú þegar tryggt sér stuðning yfir 40 ríkja, m.a. Íslands og ýmissa annarra Evrópuríkja, Bandaríkjanna og ríkja Rómönsku-Ameríku. Stjórnvöld í Kína og Rússlandi styðja hins vegar enn Maduro.

BBC segir herinn hafa notað flutningabíla og gáma til að loka á umferð um Tienditas-brúna sem tengir borgina Cucuta í Kólumbíu borginni Urena í Venesúela.

„Hersveitir loka brúnni,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Franklyn Duarte, einum þingmanna stjórnarandstöðunnar. Hefur hann og aðrir leiðtogar stjórnarandstöðunni hvatt herinn til að hleypa bílum með hjálpargögnin yfir landamærin.

„Það er ákveðin lína sem ekki má fara yfir og lyf, matvæli og læknisvörur eru sú lína,“ segir þingmaðurinn Miguel Pizarro. 

Myndir hafa verið birtar á samfélagsmiðlum í dag sem sýna íbúa bjóða hermönnum í Urena í birginn.

Sjálfur hefur Maduro sagt að koma hjálpargagnanna yrði bara upphafið að innrás Bandaríkjanna. „Enginn mun koma, ekki einn einasti innrásarhermaður,“ sagði Maduro.

Guaidó hefur sagst hafa hug á að setja upp sérstaka safnstaði í nágrannaríkjum Venesúela.

Tienditas-brúin sem tengir Cucuta í Kólumbíu og Urena í Venesúela …
Tienditas-brúin sem tengir Cucuta í Kólumbíu og Urena í Venesúela er nú lokuð með gámum og flutningavögnum svo ekki sé hægt að koma hjálpargögnum til Venesúela. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert