Hindruðu rannsókn á morði Khashoggis

Khashoggi var pistlahöfundur fyrir Washington Post. Lík hans hefur enn …
Khashoggi var pistlahöfundur fyrir Washington Post. Lík hans hefur enn ekki fundist. AFP

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu bæði „hindruðu og grófu undan“ rannsókn tyrkneskra yfirvalda á morðinu á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi. Þetta er er mat sérfræðings Sameinuðu þjóðanna samkvæmt frumdrögum skýrslu um morðið. BBC greinir frá.

13 dagar hafi liðið frá því Khashoggi var myrtur og þar til tyrknesku lögreglunni var hleypt inn á skrifstofu ræðismanns Sádi-Arabíu í Istanbúl, þar sem morðið var framið. Síðast sást til Khashoggi sem var gagnrýninn í garð Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, er hann fór inn á ræðismannsskrifstofuna 2. október.

Bandaríska leyniþjónustan hefur sagt aðgerð á borð við morðið ekki hafa verið framda nema með samþykki prinsins. Sádiarabísk yfirvöld fullyrða hins vegar að leyniþjónustumenn, sem hafi tekið lögin í eigin hendur, standi að baki morðinu.

Hafa þau handtekið 11 manns sem þau segja bera ábyrgð á morðinu og hafa farið fram á dauðarefsingu yfir fimm þeirra. Þá hafa þau neitað að framselja þá sádiarabísku embættismenn sem Tyrkir vilja meina að tengist morðinu.

Agnes Callamard, sem sér um rannsóknina, heimsótti Tyrkland á tímabilinu 28. janúar – 3. febrúar. Í frumdrögum skýrslu hennar segir að Khashoggi „hafi verið fórnarlamb hrottalegs og skipulagðs dráps, sem hafi verið skipulagt af og framið af embættismönnum sádiarabíska ríkisins“.

Þá gagnrýnir Callamard einnig réttarhöld sádiarabískra dómstóla yfir ellefumenningunum og segir þau vekja verulegar áhyggjur um gagnsæi og réttlæti.

„Ég hef óskað eftir að fá opinbera heimild til að heimsækja Sádi-Arabíu svo yfirvöld þar geti veitt mér viðeigandi sönnunargögn,“ skrifar hún.

Sú staðreynd að lík Khashoggis hafi enn ekki fundist valdi ástvinum hans þá „enn meiri angist“.

Lokaútgáfa skýrslunnar verður kynnt fyrir mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert