Segist saklaus af ákæru

AFP

Spænsk-svissneskur maður sem er sakaður um tengsl við morðingja tveggja ungra kvenna frá Skandinavíu segist saklaus en hann er ákærður fyrir að hafa kennt og leiðbeint fólki sem tengist hryðjuverkaárásinni.

Lögmaður mannsins, Saad Sahli, staðfestir þetta við fjölmiðla en maðurinn var leiddur fyrir dómara á mánudag.

Louisa Vesterager Jespersen og Maren Ueland fundust látnar í tjaldi sínu í Atlasfjöllunum 17. desember og höfðu þær verið afhöfðaðar. Marokkósk yfirvöld segja morðin hryðjuverk og hafa þau ákært yfir 20 manns í tengslum við rannsóknina.

Spænsk-svissneski maðurinn var handtekinn í Marrakes en að sögn yfirvalda aðhyllist hann hugmyndafræði öfgasinna. Hann er sakaður um að hafa kennt hluta hópsins sem er ákærður nýja tækni og eins að hafa þjálfað hann í skotfimi. Hann á að hafa tekið þátt í þjálfun nýliða og innrætingu á kenningum öfgahreyfinga í Marokkó. 

Yfirvöld í Marokkó segja að fjórmenningarnir sem eru lykilmenn í rannsókninni hafi verið undir áhrifum frá vígasamtökunum Ríki íslams án þess þó að vera í beinum tengslum við samtökin í Írak og Sýrlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert