Hjálpargögn enn föst við landamærin

Fyrstu flutningabílarnir hlaðnir hjálpargögnum frá Bandaríkjunum komu að landamærum Venesúela í gærkvöldi. Bílarnir eru hins vegar fastir í kólumbísku landamæraborginni Cúcuta.

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, harðneitar allri aðstoð frá Bandaríkjunum og segir hana greiða leið Bandaríkjastjórnar til að steypa honum af stóli. Herinn er enn á hans bandi og því er flutningabílunum, sem lagt er nálægt Tienditas-brúnni, ekki hleypt yfir hana þar sem venesúelskir hermenn standa vörð um brúna.

Juan Guaidó, leiðtogi stjórn­ar­and­stöðu Venesúela sem skipaði sjálf­an sig í síðasta mánuði for­seta til bráðabirgða, óskaði eft­ir aðstoðinni.Yfir 40 ríki, þar á meðal Bandaríkin og flest ríki Suður-Ameríku og Evrópu, hafa lýst yfir stuðningi við Guaidó.

Leiðtogar fimm ríkja Suðu-Ameríku og átta ríkja Evrópusambandsins hafa tekið að sér að leita friðsamlegrar lausnar á stjórnmálaástandinu í Venesúela í gegnum samningaviðræður. Maduro hefur hafnað kröfu ESB um kosningar en segist vera tilbúinn að funda með leiðtogum ríkjanna. Á sama tíma er Guaidó reiðubúinn að boða til kosninga, en óljóst er hvort hann hafi það umboð, en hann neitar að mæta á fund ríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert