Lýsa yfir neyðarástandi vegna nauðgana

Lýst var yfir neyðarástandi í Síerra Leóne eftir að forseti …
Lýst var yfir neyðarástandi í Síerra Leóne eftir að forseti landsins heyrði vitnisburð konu sem lifði af ebólu en hafði verið nauðgað ítrekað. CELLOU BINANI

Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í Síerra Leóne vegna kynferðislegs og kynbundins ofbeldis eftir að tilkynningar um nauðganir og líkamsárásir tvöfölduðust á milli ára.

Forseti landsins, Julius Maada Bio, lýsti yfir neyðarástandinu í gær meðal annars eftir þrýsting frá almenningi í kjölfar slíkra árása.

Bio sagði að þeir sem hefðu ráðist á ólögráða fólk yrðu dæmdir til lífstíðarfangelsisvistar en þriðjungur allra árása hefur verið gegn fólki undir lögaldri. 

Aðgerðasinnar segja að undir núgildandi lögum séu margar árásanna ekki refsiverðar. Rúmlega 8.500 brot voru skráð í fyrra en það er 4.000 fleiri en árið á undan. Í landinu búa 7,5 milljónir manna.

Samkvæmt frétt BBC er ekki vitað hvers vegna brotunum fjölgaði svona mikið á milli ára.

Bio lýsti yfir neyðarástandi eftir að hann heyrði vitnisburð konu sem lifði af ebólu en hafði ítrekað verið nauðgað.

Auk lífstíðarfangelsis vegna kynferðisbrota gegn ólögráða mun sérstakur hópur innan lögreglunnar rannsaka kynferðisbrot og þeim málum verður hraðað fyrir dómstólum.

Mikil reiði hefur ríkt í Síerra Leóne vegna kynferðisofbeldis gegn konum og börnum. Til að mynda blossaði mikil reiði upp þegar fimm ára stúlka var lömuð að hluta eftir misnotkun af hendi frænda síns.

Aðgerðasinnar segja að fá fórnarlömb tilkynni um brotin og vinni mál sín fyrir dómstólum. Refsiramminn vegna nauðgana í landinu er á bilinu fimm til 15 ár en honum er ekki oft beitt.

56 ára karlmaður sem var fundinn sekur um að nauðga sex ára stúlku var í fyrra dæmdur í eins árs fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert