Warren í framboð 2020

Elizabeth Warren lýsti yfir framboði sínu til forseta á fundi …
Elizabeth Warren lýsti yfir framboði sínu til forseta á fundi með kjósendum í Massachusetts í dag. AFP

Öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren tilkynnti formlega í dag að hún mun sækjast eftir tilnefningu Demókrataflokksins í embætti forseta Bandaríkjanna 2020. Þingmaðurinn frá Massachusetts er sagður leiðtogi vinstri væng flokksins, að því er fram kemur í umfjöllun Reuters.

Warren sem er 69 ára segist leggja áherslu á réttindi vinandi fólks, sanngjörn laun og aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

„Þetta er barátta um að byggja Ameríku þar sem draumar geta ræst, Ameríku sem er fyrir alla,“ sagði hún í ræðu sinni. „Þess vegna stend ég hér í dag, til þess að lýsa því yfir að ég býð mig fram í embætti forseta Bandaríkjanna.“

Margir hafa til þessa lýst áhuga sínum á að skora Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, á hólm og hafa frambjóðendur heimsótt Iowa, New Hampshire og Suður Karólínu, en þau ríki munu kjósa fyrst í forvali flokksins.

Þegar Warren bauð sig fram til öldungadeildarinnar árið 2012 hélt hún því fram að hún væri meðal annars komin af frumbyggjum og hefur Trump uppnefnt hana Pocahontas.

Yfirlýsingar hennar um uppruna sinn hafa sætt nokkurri gagnrýni, meðal annars eftir að kom í ljós að hún sagði kynþátt sinn vera frumbyggi á eyðublaði sem hún fyllti út á níunda áratugnum til þess að öðlast lögmannsréttindi í Texas.

Á morgun er gert ráð fyrir því að öldungadeildarþingmaðurinn Amy Klobuchar muni tilkynna hvort hún ætlar í framboð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert