Nágrannar tilkynntu um ljós og bílaumferð

Heimili Tom Hagen og Anne-Elisabeth Falkevik Hagen.
Heimili Tom Hagen og Anne-Elisabeth Falkevik Hagen. AFP

Norska lögreglan óttaðist um líf Anne-Elisabeth Hagen ef upplýst yrði að lögreglan væri að rannsaka hvarf hennar. Ástæðan fyrir því að upplýst var um málið opinberlega voru tilkynningar nágranna um dularfullar mannaferðir í nágrenninu.

Anne-Elisabeth Hagen var rænt 31. október í fyrra en ekki upplýst um hvarfið opinberlega fyrr en á þessu ári. Ekkert hefur spurst til hennar og ekki vitað hvort hún er enn á lífi. Síðast heyrðist frá mannræningjunum 16. janúar.

Norska ríkisútvarpið fjallar um rannsóknina á vef sínum í dag en lögreglan hóf rannsókn strax sama dag og Hagen hvarf. 

Nágrannar höfðu samband við lögreglu til að láta vita af dularfullum bílum við hús Hagen-hjónanna og eins að ljósin væru kveikt í húsinu allan sólarhringinn.

Nágranni Hagen-hjónanna hafði þekkt þau í meira en 40 ár og vissi að þau færu snemma í háttinn. Venjulega væru ljósin í húsinu að Sloraveien 4 slökkt klukkan 21. En 31. október voru ljósin kveikt allan sólarhringinn. Það sem Tore Skansen vissi ekki var að lögreglan væri að störfum í húsinu að leita vísbendinga. 

Skansen segir í samtali við NRK að þegar ljósin höfðu verið kveikt í tvær nætur hafi hann hringt í Anne-Elisabeth til að kanna hvort eitthvað amaði að. Það væri eðlilegt enda hefðu þau þekkst í meira en fjóra áratugi. En hann og kona hans fengu aldrei svar því enginn svaraði í farsíma Önnu-Elisabethar.

Á laugardeginum hringdi lögreglan í Skansen og bað hann um að koma á lögreglustöðina að ræða við þá. Hann  segist ekki hafa vitað hvað lögreglan hafi viljað honum en hlýtt. Þegar hann kom á lögreglustöðina var honum tjáð að Anne-Elisbeth væri saknað og lögreglan spurði hann út í símtölin í farsíma hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert