Skuldaði nágranna og myrti hann

Grete Lien Metlid, deildarstjóri ofbeldisrannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, les upp …
Grete Lien Metlid, deildarstjóri ofbeldisrannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, les upp yfirlýsingu lögreglu á blaðamannafundi á fimmtudagskvöld, skömmu eftir að lögregla handtók hinn grunaða í strætisvagni utan borgarmarkanna. Ljósmynd/Skjáskot af VGTV

Lögreglan í Ósló fór á vettvang í Bjørndal-hverfinu í Søndre Nordstrand í suðausturhluta borgarinnar á fimmtudaginn en þá hafði vinnuveitandi konu nokkurrar, 42 ára gamallar og þar búsettrar, haft samband við lögreglu og lýst áhyggjum sínum af því að konan, ráðdeildarsamur og gegn starfskraftur, hafði hvorki mætt til vinnu né boðað forföll auk þess sem ekki náðist samband við hana.

Lögregla ákvað að brjóta sér leið inn í íbúð konunnar þar sem hún fannst látin, dánarorsökin fjöldi stungusára.

Þegar þarna var komið sögu, upp úr hádegi á fimmtudag, hóf tæknideild lögreglu ítarlega manndrápsrannsókn auk þess sem vopnað lögreglulið með hunda tók að rekja mögulegar slóðir í nágrenninu. Varðist lögregla í fyrstu allra frétta af rannsókninni en lokaði fljótlega af sorpgeymslu fjölbýlishússins vegna ummerkja eða vísbendinga sem þar fundust.

Handtekinn í strætisvagni

Ekki leið á löngu uns böndin bárust að 39 ára gömlum manni, nágranna konunnar, og leitaði allt tiltækt lið lögreglu hans þar til hann fannst í strætisvagni utan borgarmarkanna og var þegar handtekinn.

Grete Lien Metlid, deildarstjóri ofbeldisrannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, kom fram á blaðamannafundi á fimmtudagskvöld og greindi þar stuttlega frá stöðu mála. Lögregla hefði fundið lík konu sem ekki hefðu verið borin kennsl á, málið væri rannsakað sem manndráp og lögreglan hefði undir kvöld handtekið mann sem grunaður væri um verknaðinn.

Á föstudag hélt rekstur málsins áfram með þeim hraða sem frekast var mögulegur, lík konunnar var krufið og fyrir hádegi hófust yfirheyrslur hins grunaða og stóðu daglangt. Um kvöldmatarleytið á föstudaginn játaði grunaði að hann tengdist verknaðinum en var ekki tilbúinn til að taka afstöðu til sektar sinnar eða sakleysis í málinu. Metlid deildarstjóri lagði áherslu á það í samtölum við fjölmiðla að enn væri mikilvægum spurningum ósvarað.

Hafði fengið lán hjá hinni myrtu

Síðar á föstudagskvöld var geðlæknir fenginn til að ræða við grunaða og leggja bráðabirgðamat á hvort hann teldist útreiknanlegur (n. tilregnelig, sem er hug­tak norsks refsirétt­ar um hvort fólk sé í and­legu ástandi til að skilja af­leiðing­ar gjörða sinna og telj­ist þar með sak­hæft) og laust fyrir hádegi í gær, laugardag, var maðurinn úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald með bréfa- og heimsóknabanni í Héraðsdómi Óslóar. Hann mótmælti ekki úrskurðinum.

Samkvæmt fréttum TV2 hafði maðurinn sem grunaður er um ódæðið fengið fé að láni hjá hinni myrtu nokkrum sinnum, þó aldrei háar upphæðir en á bilinu 1.000 til 1.500 norskar krónur í hvert skipti. Ingvild Myrold, lögmaður lögreglunnar, hefur alfarið neitað að tjá sig nokkuð um meinta skuldastöðu grunaða við hina látnu. „Ég get sagt það almennt að öll samskipti þeirra hafa þýðingu fyrir rannsóknina,“ sagði Myrold.

Mette Yvonne Larsen er skipaður verjandi mannsins. Hún sagði hann hafa gefið lögreglu upplýsingar sem tengi hann ótvírætt við málið en ekkert verði enn sem komið er sagt um afstöðu grunaða til sektar eða sakleysis. „Ég hafði áhyggjur af andlegu ástandi hans á fimmtudag og föstudag,“ sagði hún við norska ríkisútvarpið NRK í gær, „lögreglan fór fram á geðmat og vörnin studdi þá beiðni,“ sagði hún.

Hinn grunaði í málinu hefur ekki áður hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað.

Aftenposten

Dagbladet

NRK 

VG

TV2

mbl.is