Baðst afsökunar á and-semískri klisju

Ilhan Omar, þingmaður Demókrataflokksins, hefur beðist afsökunar á því að …
Ilhan Omar, þingmaður Demókrataflokksins, hefur beðist afsökunar á því að hafa haldið því fram að skýra mætti stuðning Bandaríkjastjórnar við Ísraelsríki með fjárframlögum frá ísraelskum þrýstihópum. AFP

Bandaríska þingkonan Ilhan Omar hefur beðist afsökunar á því að hafa gefið í skyn að stuðning stjórnvalda í Bandaríkjunum við Ísraelsríki mætti skýra með fjárgjöfum ísraelskra þrýstihópa til bandarískra stjórnmálamanna. Ummæli hennar þóttu til þess fallin að kynda undir gyðingaandúð og hafa verið gagnrýnd af bæði demókrötum og repúblikönum vestanhafs.

Omar, sem er íslamstrúar og kom til Bandaríkjanna sem flóttamaður frá Sómalíu, sagði á samfélagsmiðlinum Twitter í gær að AIPAC (American Israel Public Affairs Committee) væri að greiða bandarískum stjórnmálamönnum fyrir stuðning við Ísraelsríki.

Þingkonan hefur verið gagnrýnd fyrir afstöðu sína til Ísraelsríkis frá því hún settist á þing eftir áramót og má segja að í gær hafi hún fyllt mælinn, með þessum ummælum sínum.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúardeildarinnar og leiðtogi demókrata, fór fram á að Omar bæðist afsökunar „umsvifalaust“ fyrir að nota „and-semískar klisjur“ í þessu tísti sínu. Demókratinn Eliot Engel, formaður alþjóðamálanefndar fulltrúadeildarinnar, sagði „sláandi að heyra þingmann skírskota til klisjunnar um „gyðingapeninga““.

Omar varð við kröfunni um afsökunarbeiðni. Í yfirlýsingu síðdegis í dag sagði hún að gyðingaandúð væri „alvöru“-vandi og lýsti yfir þakklæti til kollega sinna á þingi, sem væru að fræða hana um „sársaukafulla sögu and-semískra klisja“.

mbl.is