Beitti húshjálp ítrekað ofbeldi

AFP

Eigandi snyrtistofu í Singapúr hefur verið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir ofbeldi í garð starfsstúlku. Linda Seah lét meðal annars stúlkuna, sem er frá Búrma, hella sjóðandi vatni yfir sig sjálfa með þeim afleiðingum að hún brenndist illa.

Tæplega 250 þúsund þjónustustúlkur eru starfandi í Singapúr en þær koma flestar frá öðrum ríkjum Suðaustur-Asíu. Efnahagur fólks í borgríkinu er mun betri en víðast annars staðar á þessum slóðum og launin yfirleitt mun hærri. 

Seah var dæmd sek í síðasta mánuði um að hafa beitt Phyu Phyu Mar ofbeldi þegar hún starfaði fyrir Seah árið 2016. Ákæran var í sex liðum en Seah neyddi stúlkuna meðal annars til þess að drekka vatn sem var búið að blanda með gólfhreinsi. Hún var einnig dæmd fyrir að hafa rifið svo fast í hár stúlkunnar að það sá á henni auk þess að hafa ítrekað barið hana með farsíma í höfuðið. Ástæða ofbeldisins var sú að Seah taldi stúlkuna of hægvirka.

Héraðsdómari sagði við uppkvaðningu dómsins að það að vera ósátt við vinnu þolandans veiti vinnuveitanda ekki heimild til þess að beita ofbeldi. Auk fangelsisrefsingar er Seah gert að greiða 6.630 Bandaríkjadali í sekt.

Að sögn dómarans var ekki nóg með að húshjálpin væri beitt ofbeldi heldur hafi henni verið neitað um mat þannig að hún var vannærð þegar hún slapp loksins úr klóm vinnuveitanda síns auk þess sem hún fékk ekki heldur greidd laun sem hún átti rétt á.

Eiginmaður Seah, Lim Toon Lend, var dæmdur í sex vikna fangelsi fyrir að hafa barið húshjálpina í eitt skipti.

mbl.is