Blekktir til Kanada í þrælavinnu

Frá Toronto í Ontario-fylki í Kanada. Mynd úr safni og …
Frá Toronto í Ontario-fylki í Kanada. Mynd úr safni og tengist fréttinni ekki beint. AFP

Fjörutíu og þrír mexíkóskir verkamenn hafa verið frelsaðir úr hálfgerðri þrælavist á kanadískum hótelum, samkvæmt því sem löggæsluyfirvöld í Ontario-fylki sögðu í dag. Smyglarar tældu mennina til Kanada, samkvæmt frétt AFP um málið.

Mexíkóarnir, nær allir karlmenn, voru fengnir til landsins á fölskum forsendum og reiddu fé af hendi til smyglara sem lofuðu þeim því að þegar komið væri til Kanada gætu þeir farið í nám, fengið atvinnuleyfi og varanlegt dvalarleyfi.

Sú var heldur betur ekki raunin. Er til Kanada var komið voru mennirnir vistaðir í sóðalegum híbýlum í borgum í Ontario-fylki og neyddir til að vinna sem húsverðir á hótelum.

„Mansal er þrælahald nútímans,“ sagði Rick Barnum hjá lögreglunni í Ontario-fylki við fjölmiðla í dag, þar sem hann greindi frá framgangi rannsóknarinnar. Enn hefur enginn verið handtekinn vegna málsins, en tveir starfsmenn þrifafyrirtækis í Barrie í Ontario hafa stöðu grunaðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert