Fjögurra barna mæður borgi ekki skatt

Viktor Orban forsætisráðherra ávarpar ungversku þjóðina.
Viktor Orban forsætisráðherra ávarpar ungversku þjóðina. AFP

Mæður í Ungverjalandi sem eignast fjögur börn eða fleiri munu ekki þurfa að greiða tekjuskatt það sem eftir er ævinnar samkvæmt áætlun þarlendra yfirvalda um að auka fæðingatíðni.

Samkvæmt forsætisráðherra landsins er þessu ætlað að tryggja framtíð landsins án þess að treysta þurfi á innflytjendur, en þjóðernissinnaður flokkur hans hefur sérstaklega sett sig upp á móti múslimskum innflytjendum.

Samkvæmt frétt BBC um málið fækkar Ungverjum um 32 þúsund á ári hverju og er fæðingatíðni í landinu undir meðaltali Evrópusambandsins.

Auk tekjuskattsniðurfellingu fyrir fjögurra barna mæður mun ungum pörum bjóðast vaxtalaust lán að andvirði rúmlega fjögurra milljóna króna. Við fæðingu þriðja barns verður lánið svo fellt niður.

Viktor Orban forsætisráðherra segir að svar Vesturlanda við lækkandi fæðingatíðni séu innflytjendur en Ungverjar hugsi öðruvísi. „Við þurfum ungversk börn.“

mbl.is