Flúði þegar hún fékk að fara á klósettið

Hind Mohammed al-Bolooki bjó með fjölskyldu sinni í Dúbaí. Hún …
Hind Mohammed al-Bolooki bjó með fjölskyldu sinni í Dúbaí. Hún segir hana hafa læst sig inni eftir að hún óskaði eftir skilnaði við mann sinn. AFP

Kona frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum, sem flúði land og hefur síðan verið í haldi í Norður-Makedóníu í varðhaldsbúðum fyrir ólöglega innflytjendur, grátbiður nú yfirvöld um að leyfa sér að óska eftir hæli í öðrum ríkjum í stað þess að senda sig aftur heim.

Konan, Hind Mohammed al-Bolooki, segir fjölskyldu sína hafa læst sig inni í herbergi á heimili fjölskyldunnar í Dúbaí í október á síðasta ári eftir að hún fór fram á skilnað frá eiginmanni sínum. Henni tókst að flýja land og sótti um hæli í Norður-Makedóníu, eftir að hún var handtekin þar, og hefur dvalið í varðhaldsbúðum fyrir ölöglega innflytjendur frá því byrjun desember. Umsókn hennar var svo hafnað í síðustu viku og fullyrða vinir hennar að það hafi verið vegna þrýstings frá yfirvöldum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum um að hún verði send aftur heim.

„Ég veit ekki hvernig ég á að komast héðan,“ segir í skilaboðum frá Boloki sem Guardian hefur undir höndum.

Flúði nauðug án barnanna

Í myndbandi sem hún tók upp er hún var enn í felum í Skopje, höfuðborg Norður-Makedóníu, skömmu áður en hún var tekin, segir hún fjölskyldu hennar hafa hafnað beiðni hennar um skilnað. Þá hafi þau krafist þess að fá passa hennar afhentan af því að þau treystu henni ekki.

„Ég er fjögurra barna móðir. Það fer engin móðir svona frá börnum sínum,“ segir Boloki í myndbandinu og kemst greinilega við. „En ég þurfti að yfirgefa börnin mín. Ég átti einskis annars kost.“

Hún flúði í eitt skipti er henni var leyft að fara á klósettið með því að klifra út um gluggann skólaus. Því næst faldi hún sig á byggingasvæði í nágrenninu í tæpa tvo tíma áður en hún bað leigubíl um að fara með sig til vinar síns í næstu borg.

Hún hafði áður komið vegabréfinu til vina sem styðja hana. „Það var þá sem hún hringdi í mig og bað mig um að bóka miða fyrir sig til Norður-Makedóníu,“ segir góður vinur hennar Nenad Dimitrov. Þau kynntust þegar hann starfaði sem einkaþjálfari um borð á skemmtiferðaskipi í Flórída og voru áfram í sambandi og heimsóttu m.a. hvort annað í Dúbaí og Skopje. „Hún gat ekki notað kreditkortið sitt, þannig að ég vissi að eitthvað var að,“ segir Dimitrov. 

Bolooki ferðaðist landleiðina til Bahrain og flaug síðan í gegnum Tyrkland til Serbíu, þar sem fjölskylda Dimitrov býr. Gleðin yfir vel heppnuðum flótta vék hins vegar fljótt eftir að hún var tekin og henni gekk erfiðlega að ná sambandi við  börn sín.

Sjeika Latifa flúði að heiman. Ekkert hefur til hennar spurst …
Sjeika Latifa flúði að heiman. Ekkert hefur til hennar spurst eftir að hún náðist.

Beitt stöðugum þrýstingi að draga umsóknina til baka

Guardian hefur eftir vinum Bolooki í Sameinuðu arabísku furstadæmunum að yngstu börnum hennar, sem eru 13 og 14 ára, hafi verið sagt að móðir þeirra sé í pílagrímsferð til Mekka. Hún náði hins vegar að vera í sambandi við tvítuga dóttur sína Fatma, sem var með eigin farsíma. Fyrir nokkrum vikum varð hins vegar allt hljótt og óttast vinir Bolooki nú að síminn hafi verið tekinn af dótturinni.

Lögfræðingur Bolooki segir yfirvöld í Norður-Makedóníu hafa stöðugt beitt hana þrýstingi um að hætta við umsóknina og snúa aftur heim. Hún var handtekin á meðan hælisumsókn hennar var í vinnslu á grundvelli þess að að hún væri ógn við þjóðaröryggi Norður-Makedóníu og hefur henni ekki verið leyft að hitta lögfræðing sinn síðan.

Guardian segir  mannréttindasamtök hafa reynt að hlutast til um mál Bolooki, sem vilji garnan sækja um hæli annars staðar, en það megi hún ekki gera á meðan hún er í varðhaldi.

Rahaf Mohammed al-Qunun vakti athygli er hún læsti sig inni …
Rahaf Mohammed al-Qunun vakti athygli er hún læsti sig inni á hótelherbergi í Taílandi til að komast hjá því að verða send aftur heim til Sádi-Arabíu. AFP

Vilja loka málinu sem fyrst

„Svo virðist sem máli Bolooki sé hraðað í gegnum kerfið á áður óþekktum hraða svo yfirvöld geti lokað máli hennar og sent hana heim,“ segir Uranija Pirovska hjá Helsinki-mannréttindasamtökunum sem hafa reynt að aðstoða hana.

„Hún er ekki á sakaskrá og engin ástæða hefur verið veitt fyrir varðhaldsvist hennar. Það er líka óvenjulegt að henni sé ekki leyft að fá gesti. Þetta mál er í alla staði grunsamlegt.“

Makedónía er ofarlega á lista yfir ríki hvað varðar spillingu og segir Adam Coogle, sérfræðingur hjá Mannréttindavaktinni í málefnum Mið-Austurlanda, að vel geti verið að ráðamenn í Sameinuðu arabísku furstadæmunum beiti Norður-Makedóníu fjárhagslegum og stjórnmálalegum þrýstingi að senda hana aftur heim. „Það er mikill áhugi nú á sádi-arabískum konum sem reyna að flýja, en ástandið fyrir konur í öðrum ríkjum fyrir botni Persaflóa getur verið alveg jafn slæmt,“ sagði Coogle.

Bendir hann á mál Sheika Latifu, prinsessunnar sem ekkert hefur til spurst frá því að hún var flutt aftur heim eftir misheppnaðan flótta.

„[Bolooki] er búin að eiga virkilega erfitt,“ segir vinur hennar Dimitrov. „Ég hef áhyggjur af að ég muni lenda í vanda fyrir að hafa hjálpað henni, en ég hef enn meiri áhyggjur af að hún verði læst inni eða jafnvel myrt ef hún verður send aftur til baka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert