Kallar þjóðvarðliða frá landamærunum

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu-ríkis.
Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu-ríkis. AFP

Ríkisstjóri Kaliforníu-ríkis í Bandaríkjunum, Gavin Newsom, tók formlega ákvörðun í dag um að afturkalla flesta þjóðvarðliða ríkisins sem sendir voru á síðasta ári að landamærunum að Mexíkó. Var ákvörðunin tekin í tengslum við stefnuræðu Newsom sem hann mun flytja á morgun þar sem meðal annars mun koma fram að erfiðleikarnir á landamærunum séu tilbúnir og að Kalifornía muni ekki taka þátt í þeirri pólitísku leiksýningu.

Fram kemur í frétt AFP að flestir hinna 360 hermanna sem staðsettir hafa verið við landamærin yrðu sendir í verkefni þar sem um raunverulega ógn væri að ræða. Til að mynda til þess að berjast við skógarelda. Rifjað er upp að í síðasta mánuði hafi ríkisstjóri Nýju-Mexíkó, Michelle Lujan Grusham, tekið hliðstæða ákvörðun hvað varðar þjóðvarðliða þess ríkis, en þjóðvarðliðar eru undir stjórn einstakra ríkja Bandaríkjanna.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur fyrirskipað þúsundum hermanna að taka sér stöðu við landamærin. Forsetinn hefur sagt að verkefni hermannanna sé að sinna eftirliti, aðstoða landamæraverði og koma í veg fyrir að ólöglegir innflytjendur komi til Bandaríkjanna. Hermennirnir geta þó ekki framfylgt lögum eða handtekið fólk.

Forveri Newsoms í ríkisstjórastól Kaliforníu, Jerry Brown sem er demókrati líkt og eftirmaðurinn, samþykkti í apríl á síðasta ári að þjóðvarðliðarnir yrðu sendir að landamærunum en hét því um leið að þeir myndu hvorki taka þátt í að reisa landamæravegginn sem Trump hefur kallað eftir né framfylgja alríkislögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert