Læknar sendir í dönskupróf

Danska ríkissjúkrahúsið, Rigshospitalet.
Danska ríkissjúkrahúsið, Rigshospitalet. www.rigshospitalet.dk

Formaður læknafélags Danmerkur, Andreas Rudkjøbing, segir eðlilegt að læknar frá öðrum ríkjum ESB verði skyldaðir til að taka dönskupróf líkt og læknar sem koma til starfa í Danmörku frá ríkjum utan ESB. Þetta kemur fram á vef danska ríkisútvarpsins.

Í dag eru reglurnar þær að læknum, sem koma frá ríkjum utan ESB og vilja starfa í Danmörku, er gert að þreyta Danskprøve 3-próf til þess að fá lækningaleyfi í Danmörku. Engin slík krafa er gerð til lækna frá öðrum ríkjum ESB. Erlendir læknar eru nú í meirihluta á nokkrum deildum danskra sjúkrahúsa. 

Rudkjøbing segir að læknafélagið telji eðlilegt að læknar sem starfi í Danmörku geti átt samræður við sjúklinga og starfssystkini og þar skipti engu frá hvaða landi viðkomandi komi.

Í raun sé þetta nauðsynlegt til þess að tryggja hag sjúklinga. Prófið sem um ræðir samsvarar dönskuprófi sem lagt er fyrir nemendur í níunda bekk grunnskóla.

Vegna skorts á læknum í Danmörku eru þar starfandi fjölmargir læknar af öðrum þjóðernum. Talið er að alls starfi 2.200 útlendir læknar í Danmörku og af þeim séu um 1.200 frá öðrum ríkjum ESB.

Frétt DR

mbl.is