Lokun stofnana vofir yfir þinghúsinu

Bandaríska þinghúsið í Washington.
Bandaríska þinghúsið í Washington. AFP

Viðræður milli demókrata og repúblikana, sem miðuðu að því að koma í veg fyrir að ríkisstofnunum verði lokað að nýju, lauk án árangurs í gær. Vonir stóðu til þess að samkomulag næðist í málinu í dag þannig að þingið hefði möguleika á að samþykkja ný lög á föstudag.

Krafa Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, um að fá fé til þess að byggja múr á landamærum Mexíkó, er ekki til umræðu af hálfu demókrata.

Matsfyrirtækið S&P; Global Ratings áætlar að bandaríska hagkerfið hafi tapað að lágmarki 6 milljörðum dala vegna lokunar ríkisstofnana í 35 daga. Stafar tapið bæði af því að vinnuframlag stórs hóps ríkisstarfsmanna fór í súginn sem og af þeim áhrifum sem skert þjónusta stofnana hafði á fyrirtæki.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti undir lok janúar að hann myndi gera tímabundið hlé á lokuninni sem þá hafði varað lengur en nokkru sinni fyrr í sögu ríkisins. Eins og greint hefur verið frá neitar Trump að samþykkja fjárheimildir til opinberra stofnana þar til þingið hefur samþykkt að láta 5,7 milljarða dala af hendi rakna til að reisa múrinn.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert