Nýr kálfur vekur vonir

Litli kálfurinn, L124, ásamt fjölskyldu sinni.
Litli kálfurinn, L124, ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Melisa Pinnow

Háhyrningskálfur fæddist í Norðvestur-Kyrrahafi á dögunum. Enn sem komið er virðist hann hraustur og kátur. Þetta þykja tíðindi því kálfurinn er af stofni suðlægu staðbundnu háhyrninganna sem er í alvarlegri útrýmingarhættu. Meira en þrjú ár eru síðan kálfur komst á legg í þessum stofni sem nú telur aðeins 75 dýr. Vísindamenn krossa nú fingur og vona að fæðing kálfsins, sem fyrst sást í byrjun janúar, sé merki um bata í hinum litla stofni sem er mikilvægur fyrir allt lífríkið í og við Salish-haf, milli British Columbia og Washington-ríkis.

Stofninum er skipt í nokkrar fjölskyldur sem vísindamenn einkenna með bókstöfum: J, K og L. Hver hópur hefur sitt „tungumál“ sem dýrin nota til að kallast á sín á milli. Litli kálfurinn tilheyrir L-fjölskyldunni og hefur fengið einkennisstafina L124.

Í fyrra fylgdist heimsbyggðin agndofa með því er kýr úr J-fjölskyldunni synti í sautján daga með dauðan kálf sinn um hafið. Sá hafði aðeins lifað í um hálftíma. Þá drapst annar háhyrningur úr þeirri fjölskyldu, kýrin Scarlett, í fyrra. Scarlett var ung að árum og móðir hennar fylgdi henni á sundinu eftir að hún veiktist og dróst aftur úr hinum úr hópnum.

Fækkað hefur hratt í háhyrningastofninum síðustu árin og hefur hann ekki verið minni í 35 ár. Um miðjan tíunda áratug síðustu aldar voru dýrin um 100. Hrun í stofni chinook-laxins, helstu fæðu háhyrninganna, er talið um að kenna. Margar kenningar eru uppi um hvað veldur því að laxinn er að hverfa, m.a. miklar hitabreytingar í hafinu, stíflur í ám í Kanada sem valda því að hann kemst ekki til hrygningarstöðva sinna, gríðarleg umferð báta og mengun. Þá eru margir vísindamenn á því að ofveiði síldar, sem er ein helsta fæða laxins, sé um að kenna. Hrun hefur orðið í síldarstofnum í Salish-hafi og Georgia-sundi. Hafa náttúruverndarsamtök nú tekið höndum saman um að vekja athygli á þeim vanda sem þau segja hafa alvarlegar afleiðingar fyrir allt lífríkið.

Greinin heldur áfram fyrir neðan færsluna.

View this post on Instagram

How much would you be willing to pay to protect orcas? In 2018 the Canadian government announced a $167.4 million plan to protect Canada’s endangered whales. $61.5 million of that money targets key threats to the Southern Resident orca pod population in the Salish Sea. These are the orcas I get to see from my deck at home and it is so sad to know that their population is the smallest its been in 34 years. There are currently 75, after the safe arrival of a newborn calf spotted for the first time this January - the first successful pregnancy in three years. One of the biggest threats they face is a decline in wild populations of Chinook salmon - a crucial prey species for orcas. This recognition by the government is a good thing, but their plan ultimately fails to acknowledge the fact that Chinook salmon feed primarily on herring. And 4 out of 5 herring populations have crashed on this coast. There is an entire ecosystem relying on the support of herring as a keystone species. If herring stocks in the Strait of Georgia and the Salish Sea are allowed to recover, it will mean a world of difference to the survival and the health of the other life that depend on them. Go to the link in my bio and add your voice to help protect these #BIGLittleFish.

A post shared by Cristina Mittermeier (@cristinamittermeier) on Feb 9, 2019 at 10:15am PST

 „Ég vildi að ég gæti sagt að líkurnar væru góðar [fyrir litla kálfinn] en því miður á stofn suðlæga staðbundna háhyrningsins í vandræðum núna,“ hefur New York Times eftir Melisu Pinnow, líffræðingi hjá Hvalarannsóknarstöðinni í Washington-ríki. „Á síðustu þremur árum hafa allir kálfar sem fæðst hafa drepist.“ Þá hafa einhverjar kýr einnig misst fóstur sín.

Pinnow var að horfa á frétt sem fylgdi myndbandi teknu úr þyrlu af hópi háhyrninganna í byrjun janúar. Þá þóttist hún sjá nýtt afkvæmi í L-fjölskyldunni. Strax næsta dag hélt hún af stað ásamt tveimur öðrum vísindamönnum til að rannsaka málið. Þá komu þau auga á kálfinn ásamt fjölskyldu sinni í Puget-sundi. „Hann virtist vera eins og hver annar kálfur, bara að leika sér í kringum móður sína, eldri systur og frændsystkini,“ segir Pinnow. Hún telur að kálfurinn hafi þá verið orðinn um þriggja vikna gamall.

Enn er óvíst hvort kálfurinn er kven- eða karlkyns. Vísindamennirnir vona að þarna fari hraust lítil kýr því það gæti skipt sköpum þegar kemur að fjölgun í stofninum.

Misjöfn afkoma háhyrninga

Háhyrninga má finna í öllum heimshöfum. Á sumum svæðum vegnar þeim vel en á öðrum, sérstaklega búsvæðum í nágrenni iðnaðarsvæða, eru þeir í útrýmingarhættu. Sýnt hefur verið fram á að hættuleg eiturefni, PCB, safnast upp í háhyrningum og kálfar fái efnin í sig strax í móðurkviði.

Greinin heldur áfram fyrir neðan myndskeiðið en þar má sjá unga kálfinn á sundi ásamt fjölskyldu sinni.

Fá önnur spendýr heimsins búa yfir jafnmikilli félagslegri færni og háhyrningar. Þeir hafast við í hópum þar sem kvendýrin ráða för. Í þessum hópum má oft finna fjór­ar kynslóðir og það eru elstu kýrnar sem eru við stjórnvölinn. Þessar ættmæður geta jafnvel náð hundrað ára aldri. Háhyrning­skýr eru í hópi örfárra annarra tegunda sem fara á breytingaskeið líkt og konur. Ættmæðurnar hafa nefnilega öðru hlutverki að gegna en að ala af sér afkvæmi: Þær eru „ljósmæður“, fóstrur, kennarar og leiðtogar. Svo mikilvægu hlu­verki gegna mæður, ömmur og langömmur í hópi háhyrninga að séu afkvæmin tekin af þeim á unga aldri ná þau aldrei þeirri færni sem þau annars hefðu öðlast.

Háhyrningar eru sérstaklega leikglaðir að eðlisfari. Suðlægu staðbundnu háhyrningarnir hafa þó síðustu ár þurft að eyða meiri orku í ætisleit en leik.

L-fjölskyldan virtist hin hressasta þegar vísindamennirnir fylgdust með henni á dögunum. Þeir urðu svo vitni að því er allar þrjár háhyrningsfjölskyldurnar komu saman til fundar, eins og þær gera gjarnan annað slagið.

Litli kálfurinn er nú kallaður Lucky, eða Lukka, af vísindamönnunum við Hvalarannsóknarstöðina í Washington. Vonandi mun hann boða gæfu fyrir háhyrningastofninn í Norðvestur-Kyrrahafi. Það er þó alls óvíst. Ein kýrin í J-fjölskyldunni, amma kálfsins sem drapst stuttu eftir fæðingu á síðasta ári, er orðin veikburða og ekki talin eiga langt eftir. Þá er annar háhyrningur, karldýrið K25, einnig við slæma heilsu eftir að hafa misst móður sína, sem hann var enn nokkuð háður um fæðu, í fyrra. 

Ken Balcomb, stofnandi Hvalarannsóknarstofnunarinnar, varar fólk við því að vera of bjartsýnt. Hann minnir á að lífslíkur Lucky séu aðeins um 50%. 

En það má alltaf vona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert