Vale vissi að stíflan var slöpp

Mótmælandi kemur skilaboðum sínum til Vale áleiðis í Sao Paulo …
Mótmælandi kemur skilaboðum sínum til Vale áleiðis í Sao Paulo í Brasilíu fyrr í þessum mánuði. AFP

Brasilíski námurisinn Vale vissi að aukin hætta væri á því að stíflan, sem gaf sig með þeim afleiðingum að yfir 300 manns grófust undir leðju og létu lífið í janúarmánuði, myndi gefa sig. Þetta fullyrðir Reuters-fréttastofan í dag og vísar til innanhússkjals hjá Vale sem fréttamenn hennar hafa séð.

Skýrsla Vale um öryggi stíflunnar, dagsett 3. október í fyrra, sýnir að fyrirtækið taldi tvöfalt meiri áhættu á því að stíflan gæfi sig en ásættanlegt var, samkvæmt þeim þolanlegu áhættumörkum sem fyrirtækið sjálft setti sér varðandi öryggi stíflna þess.

Samkvæmt frétt Reuters voru líkurnar á því að stíflan gæfi sig á næstu 12 mánuðum taldar 1 á móti 5.000, en 1 á móti 10.000 eru þær líkur sem fyrirtækið sjálft segir að séu þolanleg áhættumörk sem krefjist ekki aðgerða af þess hálfu.

Enn er leitað að líkum í aurflóðinu.
Enn er leitað að líkum í aurflóðinu. AFP

Vale hefur ekki enn svarað umleitunum Reuters um viðbrögð vegna þessa fréttaflutnings, en fyrirtækið hafði áður vísað til mats utanaðkomandi rannsakenda, þýska fyrirtækisins TÜV SÜD, um öryggi stíflunnar, en það mat gaf til kynna að stíflan væri örugg.

Þetta skjal sem Reuters greinir frá er fyrsta sönnunargagnið sem sýnir að Vale hafði áhyggjur af öryggi stíflunnar.

Í umfjöllun Reuters er skjalið sagt vekja upp spurningar um það af hverju utanaðkomandi álit á stíflunni hafi sagt að stíflan væri örugg og það af hverju Vale ákvað að grípa ekki til ráðstafana á borð við það að flytja mötuneyti starfsmanna frá stíflunni, en flestir þeirra sem urðu fyrir leðjuflóðinu voru starfsmenn fyrirtækisins, sem voru í hádegismat.

Frá mótmælum gegn Vale í Sao Paulo í Brasilíu 1. …
Frá mótmælum gegn Vale í Sao Paulo í Brasilíu 1. febrúar sl. AFP
mbl.is