Dæmdir fyrir að smygla barni til Svíþjóðar

Fredrik Önnevall og teymi aðstoðuðu drenginn við að flýja frá …
Fredrik Önnevall og teymi aðstoðuðu drenginn við að flýja frá Grikklandi til Svíþjóðar, þar sem hann hefur nú fengið varanlegt dvalarleyfi. Ljósmynd/SVT

Fréttamaður sænska ríkisútvarpsins, Frederik Önnevall, hefur verið sakfelldur í Hæstarétti landsins fyrir smygl er hann aðstoðaði sýrlenskan dreng við að flýja til landsins.

Önnevall hitti drenginn í Grikklandi árið 2014 við tökur á heimildarþáttaröðinni Fosterland (Fósturjörð) þar sem sjónum var beint að aðstæðum flóttamanna víða um heim og uppgangi þjóðernissinna í Evrópu.

Drengurinn bað Önnevall og samstarfsmenn hans, myndatökumann og túlk, að fá að fylgja þeim aftur til Svíþjóðar, eins og sjá má á myndbroti úr þættinum. Þríeykið varð við því og slóst hann í för með þeim frá Grikklandi til Svíþjóðar. Hér má nálgast þáttinn í heilu lagi.

Kominn á skólabekk með varanlegt dvalarleyfi

Fréttamennirnir voru dæmdir til að greiða um 40.000 sænskar krónur (jafnvirði um hálfrar milljónar íslenskra króna) í sekt, auk málskostnaðar en þeim verður að öðru leyti ekki gerð refsing. Hefur dómurinn því mildað úrskurð héraðsdóms í Malmö sem hafði dæmt þá til 75 daga samfélagsþjónustu í hitteðfyrra.

Önnevall segist í samtali við SVT hafa vonast eftir sýknu, en hann sjái ekki eftir neinu. „Ég er stoltur yfir því að við höfum tekið þessa ákvörðun,“ segir hann. Þeir hafi hjálpað barni, sem í dag hefur fengið varanlegt dvalarleyfi í Svíþjóð, er í skóla og vinnur samhliða námi, en Önnevall segist halda reglulegu símasambandi við drenginn þótt þeir búi ekki lengur saman.

Hinn 15 ára Abeds kom við sögu í öðrum þætti …
Hinn 15 ára Abeds kom við sögu í öðrum þætti fyrstu þáttaraðar Fósturjarðar. Skjáskot/SVT

Málsvörn fréttamannanna byggðist á því að þeim hefði borið skylda til að aðstoða drenginn út frá mannúðarsjónarmiðum, auk þess sem þeir hefðu ekki gert það í hagnaðarskyni. Féllst dómurinn á það.

Hins vegar sé ljóst að eftir komuna til Grikklands hafi þeir ferðast ólöglega með drenginn á milli ríkja Schengen-svæðisins í stað þess að tilkynna hann yfirvöldum í Grikklandi þar sem hann hefði getað sótt um hæli. Eftir komuna til Svíþjóðar sótti drengurinn síðan um hæli með aðstoð fréttamannanna.

Allt að tveggja ára fangelsi liggur við því að smygla fólki til Svíþjóðar eða annarra ríkja Schengen-samstarfsins, samkvæmt sænskum lögum.

Þiggja ekki stuðning ríkisútvarpsins

Dómur var kveðinn upp 20. desember en í yfirlýsingu frá upplýsingafulltrúa sænska ríkisútvarpsins, sem birtist samdægurs, kom fram að fréttamennirnir myndu ekki missa vinnuna vegna málsins. Þá hygðist ríkisútvarpið greiða málsvarnarlaun þeirra, en þó ekki sektina.

Í gær lýsti Önnevall því yfir að þeir myndu ekki þiggja fjárstuðning ríkisútvarpsins heldur greiða málsvarnarlaunin úr eigin vasa. Aðspurður segir Önnevall að ákvörðunin hafi ekki síst verið tekin með eigin hagsmuni að leiðarljósi. Fréttamennirnir vilji ekki að málið verði til þess að virði almenningsútvarpsins verði að bitbeini eða að umræðan hverfist um hvað skattgreiðendur þurftu að greiða.

Frétt sænska ríkisútvarpsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert