Lenti með 40 kíló af dópi

Flugvélin skömmu eftir lendingu í Kjeller þar sem lögreglan beið.
Flugvélin skömmu eftir lendingu í Kjeller þar sem lögreglan beið. Ljósmynd/Norska tollgæslan

Það var að kvöldi 8. október í fyrra sem tollgæslan á Gardermoen-flugvellinum, ásamt flugumferðarstjórum í flugturni, fylgdist með flugi smáflugvélar sem lækkaði flugið í nágrenni Óslóar án þess þó að hafa haft samband við kóng eða prest vegna lendingarleyfis.

Lenti vélin svo á litlum flugvelli í Kjeller, rétt utan við borgarmörk Óslóar, um það leyti sem lögregla mætti á svæðið að beiðni tollgæslunnar. Vélinni flugu tveir flugmenn en farþegi þeirra var Þjóðverji á fimmtugsaldri sem bar með sér óvenjulegan handfarangur, á fimmta tug kílógramma af hassi, amfetamíni og kókaíni.

Annar flugmaðurinn losnaði úr gæsluvarðhaldi í desember en hinn situr þar enn, báðir neita þó með öllu að hafa haft nokkra hugmynd um að farmur þeirra væri annar en farþeginn þýski.

Auk flugmanna og þess þýska hafa tveir Norðmenn einnig verið handteknir í málinu, annar þeirra áberandi úr skemmtistaðarekstri Óslóar.

Hluti farmsins sem reyndist rúm 40 kílógrömm af fíkniefnum.
Hluti farmsins sem reyndist rúm 40 kílógrömm af fíkniefnum. Ljósmynd/Norska tollgæslan

Flugvélin var í raun skráð á leið til Óslóar en samkvæmt pappírum var hún á leið í viðgerð þar. Þjóðverjinn sagðist vissulega hafa vitað að hann væri að flytja fíkniefni, en þverneitaði að hafa haft vitneskju um að magnið væri yfir 40 kílógrömm. Hann væri eingöngu milliliður, hefði átt að afhenda efnin í Ósló gegn greiðslu, en væri þó ekki kunnugt um nákvæma upphæð.

Og tilgangur alls þessa: Þjóðverjinn væri umboðsmaður listamanna og ynni nú hörðum höndum að því að bóka listamenn á viðburð í Palestínu og þeir ynnu ekki ókeypis.

Norski skemmtistaðamaðurinn hefur neitað sök í málinu og segist ekkert vita um smyglið en sá þýski hafi þó ætlað að þiggja gistingu hjá honum.

Norska lögreglan vinnur nú að því að upplýsa málið í samvinnu við lögreglu í Þýskalandi.

VG

Romerikes Blad

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert