Neteinelti skekur franskan fjölmiðlaheim

Liðsmenn LOL-hópsins notuðu gjarnan falska Twitter-aðganga til þess að gera …
Liðsmenn LOL-hópsins notuðu gjarnan falska Twitter-aðganga til þess að gera lítið úr kollegum sínum innan fjölmiðla. AFP

Nokkrum stjórnendum hjá franskra fjölmiðla hefur verið vikið úr starfi eða þeir reknir vegna þátttöku sinnar í netáreiti og -einelti sem helst beinist gegn kvenkyns kollegum þeirra og femínískum aðgerðasinnum.

BBC greinir frá því að umræddir stjórnendur og starfsmenn fjölmiðla hafi verið í hópnum League du LOL á Facebook.

Fjöldi fólks hefur lýst upplifun sinni af neteinelti sem það hefur orðið fyrir af hendi hópgesta, en það var vinstrisinnaða dagblaðið Libération sem fletti ofan af hópnum. Meðal þeirra sem vikið hefur verið úr starfi vegna þátttöku sinnar eru tveir blaðamenn Libération.

Gerðu lítið úr konum og sögðu nauðgunarbrandara

Vincent Glad, franskur lausapenni sem stofnaði hópinn árið 2009, hefur beðist afsökunar á Twitter og sagt háttalagið óásættanlegt og ekki fyndið „þegar það væri framkvæmt í hópum“.

Félagar LOL-hópsins notuðu gjarnan falska Twitter-aðganga til þess að gera lítið úr kollegum sínum innan fjölmiðla, yfirleitt konum, sögðu nauðgunarbrandara og „fótósjoppuðu“ myndir af fjölmiðlafólki inn á klámfengnar ljósmyndir.

Eitt fórnarlambanna, Florence Porcel, hefur lýst því hvernig einn liðsmanna hópsins hringdi í hana á fölskum forsendum og tók hana í atvinnuviðtal vegna starfs sem ekki var til. Viðtalið var síðan birt opinberlega til þess að gera lítið úr henni. Ritstjóri Les Inrockuptibles hefur viðurkennt að hafa staðið að viðtalinu og beðist afsökunar, en grunur leikur á að fleiri háttsettir fjölmiðlamenn hafi komið að hrekknum.

Ráðherra stafrænna mála innan frönsku ríkisstjórnarinnar hefur fordæmt League du LOL og sagt hópverja aumingja.

mbl.is