Skilja ekki umhverfisvanda jarðar

Flóð í Queensland í Ástralíu í byrjun þessa mánaðar. Vísindamennirnir …
Flóð í Queensland í Ástralíu í byrjun þessa mánaðar. Vísindamennirnir segja flóð nú 15 sinnum algengari en áður. AFP

Stjórnvöld og stjórnmálamenn skilja ekki til fulls hversu alvarlegum umhverfisvanda jörðin sendur frammi fyrir. Þetta fullyrðir IPPR-hugveitan í nýrri skýrslu, þar sem segir að áhrif manna á jörðina séu komin á hættulegt stig og ógni þar með alþjóðahagkerfinu og samfélögum manna. BBC segir vísindamenn raunar vara við að þessi blanda geti reynst banvæn.

Meðal þeirra þátta sem hafa áhrif eru loftslagsbreytingar, hrun í tegundastofnum, jarðvegsrof og næringarsnauður jarðvegur henni samfara, skógareyðing og súrnun sjávar.

Hugveitan, Institute for Public Policy Research, sem telst vinstra megin við miðju, segir þessa þætti keyra áfram flókið hreyfifræðilegt ferli óstöðugleika í umhverfismálum sem hafi náð hættulegum stað.

Glugginn til að forðast stórslys við það að lokast

Segir IPPR óstöðugleikann aukast með hraða sem eigi sér engin fordæmi í mannkynssögunni. Varar hugveitan við því að sá gluggi sem við höfum til að forðast stórslys sé hratt að lokast.

Höfundar skýrslunnar hvetja til þrenns konar breytinga á pólitískum skilningi — varðandi umfang og hraða niðurbrots umhverfisins, áhrifa þess á samfélög  og þörfina fyrir ummyndandi breytingar. Þannig segja skýrsluhöfundar að frá 2005 hafi tíðni flóða um heim allan aukist fimmtánfalt, öfgaveðrakerfi séu nú tuttugu sinnum algengari og gróðureldar sjö sinnum tíðari.

Fellibylurinn Flórens myndaður frá gervihnetti. Vísindamennirnir segja að öfgaveðrakerfi séu …
Fellibylurinn Flórens myndaður frá gervihnetti. Vísindamennirnir segja að öfgaveðrakerfi séu nú tuttugu sinnum algengari en þau voru fyrir 2005. AFP

Þó að loftslagsbreytingar rati inn í stjórnmálaumræðuna, þá geri þessir atburðir það ekki svo neinu nemi.

Í skýrslunni er bent á að hið næringarríka efsta lag jarðvegarins hopi nú 10-40 sinnum hraðar heldur en það nær að endurnýjast náttúrulega. Strax um miðja 20. öldina hafi um 30% af ræktanlegu landi verið orðið næringarsnautt af völdum jarðvegsrofs og strax árið 2050 kunni 95% af öllu ræktanlegu landi jarðar vera orðið næringarsnauðara en nú er. Nefna vísindamennirnir Bretland sem sagt er vera eitt þeirra ríkja heims sem hvað mest hafi gengið á ræktarland.

Tímabil niðurbrots hafið

Er það mat margra vísindamanna, að því er fram kemur í skýrslunni, að við séum nú komin á nýtt stig enn hraðari umhverfisbreytinga.  „Við skilgreinum þetta sem tímabil niðurbrots umhverfisins til að undirstrika enn frekar umfangið, hraðann og afleiðingarnar,“ segir í skýrslunni.

Simon Lewis, prófessor í loftslagsbreytingum við University College London, segir rétt hjá IPPR að umhverfisbreytingar verði nú sífellt örari og að þær ógni samfélögum.

„Vandamál framtíðar á borð við hækkandi matarverð vegna minnkandi matvælabirgða geta leitt til uppþota og þá geta auknir fólksflutningar einnig orðið byrði á þjóðfélögum,“ segir Lewis.

„Í sameiningu geta þessir atburðir reynst stjórnkerfinu og alþjóðaviðskiptakerfinu um megn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina