Vill fá gullforða Venesúela til baka

Forseti Venesúela, Nicolas Maduro, hefur óskað eftir því að gullforði landsins, upp á tugi tonna af gulli, verið fluttur heim en forðinn er geymdur í Bretlandi.

Fram kemur í frétt AFP að Maduro hafi neitað að leyfa ríkjum eins og Bandaríkjunum og Bretlandi að senda neyðaraðstoð til Venesúela þrátt fyrir að milljónir íbúa landsins búi við skort á brýnustu nauðsynjum eins og matvælum og lyfjum.

Maduro telur að það fæli í sér erlend afskipti að leyfa erlendum ríkjum að senda neyðaraðstoð til Venesúela. Haft er eftir Maduro að gullið sé eign landsins og hann vilji að það verði sent til baka fremur en neyðaraðstoð.

Enn fremur segir í fréttinni að stjórn Maduros hafi reynt ítrekað undanfarna mánuði að fá gullforða Venesúela afhentan. Ríkisstjórn Bretlands er ein þeirra sem hafa viðurkennt Juan Guaido, forseta þings Venesúela, sem starfandi forseta landsins.

Nicolas Maduro, forseti Venesúela.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert