Reyndu að koma fé frá Venesúela

Mikil ólga ríkir undir stjórn Maduros forseta í Venesúela.
Mikil ólga ríkir undir stjórn Maduros forseta í Venesúela. AFP

Yfirvöld í Búlgaríu og Bandaríkjunum hafa stöðvað það sem þau telja ráðabrugg til að flytja peninga með ólögmætum hætti frá Venesúela. Viðskiptabönn ríkja gagnvart Venesúela vegna ólgunnar þar í landi.

Yfirvöld í Búlgaríu og Eric Rubin, sendiherra Bandaríkjanna þar í landi, greindu frá því á blaðamannafundi í dag að lagt hafi verið hald á milljónir evra frá venesúelska ríkisolíufyrirtækinu PCDSA sem lagðir höfðu verið inn á bankareikninga í Búlgaríu.

Sjóðirnir voru sagðir hafa átt að fara til kaupa á mat og öðrum varningi fyrir íþróttasamtök í Venesúela. Peningarnir voru greiddir inn á marga reikninga í eigu lögfræðings sem bæði hefur búlgarskt og venesúelskt ríkisfang. Sá hefur nú yfirgefið Búlgaríu.

Þegar var búið að millifæra einhvern hluta upphæðarinnar á aðra reikninga og í öðrum löndum að sögn búlgarska saksóknarans Sotir Tsatsarov. Hann telur að sú ástæða sem gefin var fyrir söfnun peninganna á búlgarska reikninga eigi ekki við nein rök að styðjast. Hann telur líklegt að hafin verði rannsókn á peningaþvætti.

Enn er verið að rannsaka hvort sambærilegar millifærslur hafi verið gerðar á aðra reikninga í Búlgaríu.

Bandaríski sendiherrann Rubin segir mjög mikilvægt að stöðva ólöglegt peningaflæði frá kúgunaröflunum í Venesúela.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert