Verða sektaðir fyrir hundsgelt

Bæjarstjórinn segir tilganginn með reglugerðinni ekki vera að banna hunda …
Bæjarstjórinn segir tilganginn með reglugerðinni ekki vera að banna hunda og fólk eigi ekki von á sekt fyrir minnsta gelt. Mynd úr safni. AFP

Bæjarstjóri í franska bænum Feuquières hefur sett á bann við viðvarandi gelti og eiga hundaeigendur í bænum nú á hættu að fá rúmlega 68 evru sekt (rúmar 9.300 kr.) gelti hvutti oft eða langtímum saman.

Bæjarstjórinn Jean-Pierre Estienne segir bannið hafa verið sett á til að bregðast við hundum sem gelti daga og nætur og skapi þannig „óbærilegt ástand“ í bænum.

Dýraverndarsinnar hafa hins vegar gagnrýnt nýju reglugerðina.

„Tilgangurinn er ekki að banna hunda og við munum ekki sekta fólk fyrir minnsta gelt,“ hefur franska dagblaðið Le Parisien eftir Estienne. „Bærinn hefur ekkert á móti hundum, en þegar maður fær sér hund þá þarf maður að kenna honum.“

Þeir sem brjóta gegn reglugerðinni geta átt von á að …
Þeir sem brjóta gegn reglugerðinni geta átt von á að fá sekt fyrir hverja kvörtun sem beinist gegn þeim. Mynd úr safni. AFP

Reglugerðin sem bæjarfélagið samþykkti fyrr í mánuðinum kveður á um að bannað sé að skilja hunda eftir í lokuðu rými án þess að eigandinn sé nærri til þess að stöðva „langvarandi eða ítrekað gelt“. Þá ber að halda þeim hundum innandyra sem gelta mikið og trufla þannig hvíld eða slökun þeirra 1.400 íbúa sem búa í Feuquières.

Þeir sem brjóta gegn reglugerðinni geta átt von á að fá sekt fyrir hverja kvörtun sem beinist gegn þeim.

BBC segir reglugerðinni sérstaklega hafa verið komið á eftir undirskriftalista íbúa vegna eins íbúa bæjarins. „Hún á nokkra hunda, sem sumir hverjir eru stórir,“ sagði Estienne. „Við höfum gert ítrekaðar tilraunir til að ræða við hana, en án nokkurs árangurs. Ég greip því til þessara aðgerða af því að við fundum enga aðra leið til að taka á þessu og ég gat ekki setið hjá og gert ekkert.“

Stéphane Lamart, forseti franskra dýraverndarsamtaka, segir reglugerðina vera snarbilaða. „Það væri eins hægt að banna að kirkjuklukkur hringi á sunnudagsmorgnum,“ sagði hann í samtali við Le Monde.

„Ef hundar hafa kjaft, þá er það til þess að þeir geti gelt.“

Lamart kveðst þá ætla að fara með málið fyrir dómstóla. „Ég hef aldrei hitt þann hund sem geltir frá morgni til kvölds,“ sagði hann.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem franskir ráðamenn hafa sett reglugerð um hundsgelt, en bann við viðvarandi hundsgelti var samþykkt í Sainte-Foy-la-Grande í suðvesturhluta Frakklands árið 2012 á þeim grundvelli að það truflaði „almannafrið“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert