Barr tekinn við embætti dómsmálaráðherra

William Barr er nýr dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
William Barr er nýr dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt skipan Williams Barr í embætti dómsmálaráðherra. Donald Trump Bandaríkjaforseti tilnefndi Barr í embættið í desember eftir að Jeff Sessi­ons sagði af sér í nóvember eft­ir þrýst­ing frá Trump.  

Barr hef­ur áður gegnt embætt­inu í stjórn­artíð Geor­ge H.W. Bush, fyrr­ver­andi Banda­ríkja­for­seta. 

54 öldungadeildarþingmenn greiddu atkvæði með tilnefningunni, þar á meðal þrír demókratar. 45 voru á móti, til að mynda Rand Paul, þingmaður repúblikana.

Matthew Whitaker hefur gegnt embættinu til bráðabirgða frá því að Sessions sagði af sér en nú tekur Barr formlega við frá og með deginum í dag.

Meðal verkefna sem bíða hans er að hafa umsjón með rannsókn af mögulegum afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016, rannsókn sem Trump hefur kallað nornaveiðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert