Birta teikningar raðmorðingja

Í umfjöllun BBC segir að fórnarlömb Little hafi flest verið …
Í umfjöllun BBC segir að fórnarlömb Little hafi flest verið jaðarsettar og varnarlausar konur. Ljósmynd/FBI

Bandaríska alríkislögreglan hefur opinberað teikningar raðmorðingjans Samuel Little af fórnarlömbum hans í von um að hægt verði að bera kennsl á einhverjar af þeim 90 konum sem hann játar að hafa orðið að bana.

Little er 78 ára gamall og játaði að hafa myrt 90 konur á rúmlega 30 ára tímabili, allt frá 1970 til 2005, en hann var þá þegar í þreföldu lífstíðarfangelsi vegna morðs.

Í umfjöllun BBC segir að fórnarlömb Little hafi flest verið jaðarsettar og varnarlausar konur, en ekki hefur tekist að bera kennsl á jarðneskar leifar þeirra allra og mörg dauðsfallanna voru aldrei rannsökuð.

Little var hnefaleikakappi og kýldi fórnarlömb sín meðvitundarlaus áður en hann kyrkti þau. Af þeim sökum var ekki alltaf augljóst að um morð hafi verið að ræða og dauðsföllin oftar en ekki skráð sem orsakir slysa eða eiturlyfjaneyslu.

Alríkislögreglan hefur nú ákveðið að birta teikningar Little af fórnarlömbunum, en myndunum fylgir áætlaður aldur kvennanna, árið sem þær voru myrtar og í sumum tilvikum upplýsingar um það hvar og hvernig þær hittu morðingja sinn, hvar hann losaði sig við lík þeirra og jafnvel vangaveltur um nöfn þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert