„Sagði ég að ég elska ykkur?“

Nemendur, foreldrar og stjórnmálamenn komu saman Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum í Parkland í Flórída í dag og minntust þeirra sem létu lífið á Valentínusardag í fyrra, þegar fyrrverandi nemandi við skólann skaut 14 nemendur og þrjá kennara við skólann til bana.

Kennsla féll niður í skólanum í dag og boðið var upp á ráðgjöf fyrir nemendur og kennara í staðinn. Þá var mínútu þögn haldin til minningar um fórnarlömbin.

„Þetta er erfiður dagur,“ segir Victoria Gonzalez, 18 ára nemandi við skólann, sem missti besta vin sinn í árásinni í fyrra.

Victoria Gonzalez, 18 ára nemandi við skólann, missti besta vin …
Victoria Gonzalez, 18 ára nemandi við skólann, missti besta vin sinn í árásinni í fyrra. AFP

Foreldrar nemenda sem létust í árásinni rifjuðu upp þennan örlagaríka dag, hver með sínum hætti. Sumir mættu á skólalóðina en aðrir nýttu sér Twitter eða aðra samfélagsmiðla.

„Fyrir akkúrat ári, um klukkan sjö að morgni, sendi ég tvö börn í skólann,“ segir í færslu Fred Guttenberg. Dóttir hans, Jamie, lést í árásinni. „Aðeins sonur minn Jesse kom heim. Minningin um þennan morgun mun ávallt ásækja mig, að koma þeim út í snatri frekar en að njóta stundarinnar. Sagði ég að ég elska ykkur?“ segir jafnframt í færslunni.

Berjast fyrir hertri byssulöggjöf  en gera hlé í dag

Árás­in er ein sú mann­skæðasta í nú­tíma­sögu Banda­ríkj­anna. Skömmu eftir hana brut­ust út mik­il mót­mæli víða í landinu auk þess sem nem­end­ur gengu út úr skól­um eft­ir að hafa gert at­huga­semd­ir við ör­yggi nem­enda og starfs­fólks í skól­um lands­ins. Þá hefur stór hópur farið fram á að byssulöggjöf í landinu verði endurskoðuð og hert.

Emma Gonzalez, sem hefur farið fyrir hreyfingu nemenda sem krefjast hertrar byssulöggjafar, segir að hreyfingin muni hafa hægt um sig fram yfir helgi. „Eins og svo margir í okkar samfélagi ætla ég að beina allri minni athygli að vinum og fjölskyldu og minnast þeirra sem við misstum,“ segir Gonzalez.

„Við elskum Parkland“

Dyrum skólans var lokað klukkan 14:20 í dag, en á þeim tíma fyrir ári hóf Nikolas Cruz, fyrrverandi nemandi við skólann, að skjóta á nemendur á skólalóðinni. „Á þessum degi viljum við hafa hægt um okkur, einfaldlega virðingarinnar vegna. Við elskum Parkland og viljum ekki að þessi dagur snúist um mótmæli, þetta er dagur til að syrgja,“ segir Ryan Servaites, fimmtán ára gamall nemandi við skólann sem lifði árásina af.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur heitið því að öryggi nemenda við skóla í landinu verði tryggt og segir það meðal helstu forgangsmála. „Við skulum lýsa því yfir í sameiningu, sem Bandaríkjamenn, að við munum ekki una okkur hvíldar fyrr en skólarnir okkar eru öruggir og samfélög okkar óhult,“ segir í yfirlýsingu frá forsetanum.

Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fer fögrum orðum um nemendur skólans og hrósar þeim fyrir framgöngu sína frá því að árásin átti sé stað og þeim árangri sem barátta þeirra hefur skilað, meðal annars með því að koma breyttri byssulöggjöf í gegn í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna.

„Ég er stoltur af þeim öllum,“ segir Obama.



Fórnarlamba skotárásarinnar í framhaldsskólanum í Parkland var minnst í dag, …
Fórnarlamba skotárásarinnar í framhaldsskólanum í Parkland var minnst í dag, ári eftir að árásin átti sér stað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert