Ætlaði að reykja gras en fann tígrisdýr

Tígrisdýrið var geymt í litlu búri. Það var þyrst er …
Tígrisdýrið var geymt í litlu búri. Það var þyrst er björgunarmenn komu á vettvang. Skjáskot/Facebook

Karlmanni sem fór inn í mannlaust hús í Houston í Texas  til að reykja marijúana brá heldur betur í brún er hann áttaði sig á því að hann væri ekki einn í húsinu. Er hann kom auga á tígrisdýr hélt hann í augnablik að hann væri með ofskynjanir.

Tígurinn var í búri og maðurinn gerði það eina rétta: Hringdi eftir aðstoð fyrir dýrið. Í frétt The Dodo segir að lögreglan hafi verið full efasemda í fyrstu er hún heyrði af tilefni þess að maðurinn fór inn í húsið. Grunaði hana að maðurinn væri ekki með réttu ráði eftir kannabisreykingar. 

Engu að síður var ákveðið að hafa samband við dýraverndunarsamtök og fara á vettvang. Er þangað var komið fór ekki á milli mála að inni í húsinu væri villt dýr. 

Tígrisdýrið bjó við vondar aðstæður í þröngu búri. Tígurinn, sem er karldýr, tók björgunarmönnum fagnandi. Samtök sem sérhæfa sig í meðferð villtra dýra buðust svo til að taka við honum og sjá um hann héðan í frá.

Í frétt The Dodo kemur fram að í Texas-ríki er ekki ólöglegt að eiga tígrisdýr en það er hins vegar ólöglegt að halda slík dýr í borginni Houston.

Talið er að um 5.000 tígrisdýr séu í haldi manna í Bandaríkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert