Útivistartíminn ættaður frá Norður-Kóreu

Geir Tveit, fulltrúi í forvarnadeild lögreglunnar í Ósló, sýnir norska …
Geir Tveit, fulltrúi í forvarnadeild lögreglunnar í Ósló, sýnir norska ríkisútvarpinu brot af hnífasafninu sem lögregla hefur lagt hald á nýverið og heldur þarna á tveimur hálfgerðum sveðjum í kvöldfréttatímanum á miðvikudaginn. Skjáskot/Sjónvarpsfréttir NRK 13. febrúar 2019

Tillaga norska Framfararflokksins í borgarstjórn Óslóar um að settar verði sérstakar reglur um útivistartíma barna vekja litla hrifningu hjá Petter Eide, þingmanni Sósíalíska vinstriflokksins. Segir Eide hugmyndina að baki slíkum tillögum eiga rætur sínar í Norður-Kóreu.

Framfaraflokkurinn vill að börnum yngri en 14 ára verði bannað að vera úti við eftir ellefu á kvöldin. Leggur flokkurinn þetta til sem mögulega lausn á nýlegum hnífstungufaraldri í Ósló.

Hugmyndin vekur, líkt og áður sagði, litla hrifningu hjá Eide sem segir þetta vera „örvæntingafyllsta spuna“ sem komið hafi frá Framfaraflokknum í áratugi. Innblásturinn að hugmyndinni komi frá Norður-Kóreu.

„Að ríki eigi að ákveða hvenær barn eigi að fara heim eða hvenær barn eigi að fara að sofa, nú eða þá hvenær barn eigi að vera inni eða úti, það eru bara öfgafullir kommúnistaeinræðisherrar sem hafa reynt þetta áður,“ hefur norska TV2-sjónvarpsstöðin eftir Eide.

Þess má geta að útivistartími íslenskra barna er festur í barnaverndarlög og hefur verið í gildi  í áratugi. Kveður hann á um að börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20 yfir vetrartímann, nema í fylgd með fullorðnum en börn 13 til 16 ára mega vera úti til klukkan tíu. Yfir sumartímann mega börn 12 ára og yngri svo vera úti til kl. 22 á kvöldin, en 13-16 ára börn til miðnættis.

Dagsektir settar á og bætur skertar

TV2 segir Framfaraflokkinn hafa lagt til að dagsektir verði lagðar á þá foreldra sem ekki gæta þess að útivistartíminn sé virtur. Þannig lagði Framfaraflokkurinn til á borgarráðsfundi að þeir foreldrar barna undir 14 ára aldri sem leyfðu börnum sínum að vera eftirlitslausum úti eftir kl. 23 á kvöldin verði rukkaðir um dagsektir, eða fjárhagsaðstoð þeirra verði skert.

„Fái þeir fjárhagsaðstoð frá borginni skerðum við bæturnar,“ hefur Carl I. Hagen, oddviti Framfaraflokksins, áður sagt í viðtali við TV2. „Við verðum að fá foreldra til að segja við börn sín: Þú verður að vera heima eftir klukkan 23 á hverju kvöldi.“

Töluvert er um það í Ósló að ungmenni eigi aðild að atvikum þar sem hnífar og eggvopn koma við sögu. Eide telur lausnina þó ekki vera þá að láta refsinguna ná yfir allan hópinn.

„Það er ekki hægt að refsa öðrum ungmennum sem haga sér vel og virða lögin af því að lítill hópur ungmenna brýtur af sér,“ segir hann og kveður „viðurstyggð“ að vilja refsa unglingum með þessum hætti.

Upplifa sig óæskilega

Hans Sverre Sjøvold, lögreglustjóri Óslóar, segir lögreglu fyrst og fremst þurfa að fá leyfi löggjafans til að bregðast harðar við. „Það ætti að læsa þau inni og það ætti hreint út sagt að þvinga þau til að þiggja aðstoðina og forvarnirnar sem borgin býður þeim,“ segir Sjøvold.

Eirik Husby Sæther, lögreglumaður sem hefur verið á afbrotavaktinni í Ósló frá 2009, telur ungmennin fyrst og fremst þurfa á hjálp að halda. „Þetta eru strákar sem hafa frá því þeir voru 10-11 ára gamlir upplifað að þeir séu óæskilegir,“ segir Sæther. „Það endar svo með glæpum og vímu, til að mynda með notkun á hníf. Svo sitjum við hin og tölum um það hve hræðilegir þeir eru.“

Sjálfur kveðst Sæther þeirrar skoðunar að grípa þurfi harðar inn í og bjóða meiri aðstoð en gert sé í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert