„Veggir virka“

Donald Trump Bandaríkjaforseti staðfesti í dag að hann mun lýsa …
Donald Trump Bandaríkjaforseti staðfesti í dag að hann mun lýsa yfir neyðarástandi til að tryggja að múr verði byggður á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti staðfesti í dag að hann mun lýsa yfir neyðarástandi til að reyna að kom­ast fram hjá þing­inu og fá aukn­ar fjár­veit­ing­ar til að byggja múr á landa­mær­um Banda­ríkj­anna og Mexí­kó.

„Veggir virka,“ sagði Trump meðal annars þegar hann ávarpaði fjölmiðlafólk.

Bygging landamæramúrsins var eitt af helstu kosningaloforðum Trumps fyrir tveimur árum en Demókratar segja aðgerð hans að lýsa yfir neyðarástandi sé „lágkúruleg misnotkun á valdi.“

Trump hyggst undirrita yfirlýsingu um neyðarástand á sama tíma og hann undirritar fjárlög sem eiga að koma í veg fyrir að lokun alríkisstofnana endurtaki sig. Með því að lýsa yfir neyðarástandi fær forsetinn aðgang að milljörðum dollara sem hann hyggst nýta til að reisa múrinn.

„Við ætlum að horfast í augu við öryggiskrísuna sem ríkir við landamæri okkar í suðri. Þetta er mjög einfalt, við viljum koma í veg fyrir að glæpamenn og gengi komi inn í landið okkar“ , segir Trump.

Ríkissaksóknari mun láta reyna á lagalegan grundvöll

New York Times fullyrðir að yfirlýsing Trumps um neyðarástand brjóta í bága við þing­venj­ur og að hún sé lík­leg til að valda því að ör­lög landa­mæramúrs­ins endi fyr­ir dóm­stól­um. Ríkissaksóknari í New York, Letitia James, hefur sent frá sér yfirlýsingu að hún muni láta reyna á lagalegan grundvöll þess að lýsa yfir neyðarástandi í þeim tilgangi sem Trump nýtir sér ákvæðið.

„Við munum ekki láta það viðgangast að vald sé misnotað og munum nýta öll lagaleg ákvæði sem við höfum til umráða,“ segir í yfirlýsingu James.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert