Dómstólar munu eiga síðasta orðið

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um neyðarlögin úr Rósargarðinum við Hvíta ...
Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um neyðarlögin úr Rósargarðinum við Hvíta húsið í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti í gær yfir neyðarástandi á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna, en með því getur hann ráðstafað milljörðum dala, sem þingið hafði áður neitað honum um, til að byggja vegg á landamærunum. Veggurinn hefur verið meðal hans helstu kosningaloforða, en ákvörðunin hefur þegar mætt mikilli mótspyrnu og ljóst er að lokaákvörðun um réttmæti ákvörðunarinnar mun liggja í höndum dómstóla.

Trump réttlætti ákvörðun sína með því að vísa til að mikið flæði fíkniefna, afbrotamanna og ólöglegra innflytjenda væri yfir landamærin og að þetta væri ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Þrettán tímum áður en Trump tilkynnti um ákvörðunina hafði þingið samþykkt fjárlög þar sem framlög til veggsins voru ekki tiltekin.

Demókratar bregðast harðlega við

Gagnrýnendur Trumps hafa bent á að flæði ólöglegra innflytjenda hafi þegar dregist saman og að hann sé að búa til krísu.

Demókratar brugðust strax við með að segja ákvörðun hans brot á stjórnarskránni. Demókratarnir Nacny Pelosi, forseti neðri deildar þingsins og öldungadeildarþingmaðurinn Chuck Schumer, sögðu í sameiginlegri yfirlýsingu að með þarna væri svekktur forseti að reyna að sópa til sín völdum og færi í leiðinni út fyrir ramma laganna eftir að hafa ekki náð því sem hann vildi eftir gildandi lögum.

Nancy Pelosi, forseti neðri deildar þingsins, hefur gagnrýnt ákvörðun forsetans ...
Nancy Pelosi, forseti neðri deildar þingsins, hefur gagnrýnt ákvörðun forsetans og segir Demókrata ætla að taka málið alla leið fyrir dómstólum. AFP

Neyðarástandi lýst yfir 59 sinnum síðan 1976

Í ræðu sinni í gær sagði Trump að fjöldi forseta hefði lýst yfir neyðarástandi og því væri ákvörðun hans ekkert stórmál. Forsetar hefðu áður lýst yfir neyðarástandi fyrir minna alvarlega hluti. Lög sem heimiluðu forsetum að lýsa yfir neyðarástandi voru samþykkt árið 1976 og hefur þessi heimild verið notuð í 59 skipti.

Meirihluti þeirra skipta er þegar forsetar hafa notað viðskiptaþvinganir eða kyrrsett eignir erlendra embættismanna eða hópa. Hafa ástæðurnar meðal annars verið hryðjuverk, mannréttindabrot eða fíkniefnaviðskipti. Aldrei áður hefur verið um að ræða mál þar sem þingið hafði áður neitað forsetanum um fjárhæðir í ákveðin verkefni.

Með því að lýsa yfir neyðarástandi þar sem þörf er á hernum getur forsetinn notað fjármuni sem fara áttu í uppbyggingarverkefni hersins til að bregðast við neyðarástandinu. Hvíta húsið hefur vísað í tvö skipti þar sem forseti hefur áður gert það, en þá var um að ræða neyðarástand sem George H. W. Bush lýsti yfir í tengslum við Persaflóastríðið og ákvörðun sonar hans og forseta, George W. Bush,  í tengslum við árásirnar 11. september. Í bæði skiptin var ekki um að ræða verkefni sem þingið hafði áður tekið til meðferðar og hafnað.

Mótmælendur í New York mótmæltu fyrirhuguðum vegg í gær.
Mótmælendur í New York mótmæltu fyrirhuguðum vegg í gær. AFP

3,6 milljarðar dala úr uppbyggingasjóði hersins

Fjármunirnir sem forsetinn fær með þessari ákvörðun eru um 3,6 milljarðar dala sem flytjast úr uppbyggingasjóði hersins. Þá hefur hann horft til 2,5 milljarða dala sem átti að nota í stríðinu við fíkniefni og 600 milljónir dala úr sjóði fjármálaráðuneytisins. Þá hafði hann hann fengið samþykkt 1,375 milljarða í fjárlögum fyrir girðingum. Samtals er því um að ræða 8 milljarða sem hann hefði til taks, en það er meira en þeir 5,7 milljarðar sem hann hafði farið fram á við þingið að veita í verkefnið.

Málið þegar komið á borð dómstóla

Trump sagði í ræðu sinni að hann væri viðbúinn því að ákvörðun hans færi fyrir dómstóla. Þar sem hann fengi líklegast dóma gegn sér á tveimur lægri dómstigum, en að í Hæstarétti myndi hann líklega vinna.

Ekki leið á löngu þar til fyrsta málið rataði á borð dómstóla, en hagsmunahópurinn Public citizen lagði fram kæru af hálfu landeigenda í Texasríki, en veggurinn á að vera á landareign þeirra. Þá hafa ríkin Kalifornía og New York einnig tilkynnt að þau muni kæra ákvörðun Trumps.

Þau Pelosi og Schumer hafa einnig sagt að Demókratar muni leggja málið fyrir dómstóla og nota öll möguleg ráð til að forsetinn geti ekki notað fjármunina í að byggja vegginn. Það er því ljóst að síðasta orðið í þessu máli, sem var eitt helsta kosningaloforð Trumps, verður á höndum dómstóla.

mbl.is
ERNA 95 ára, hreinsum til á lagernum.
25 til 75% afsláttur. Silfurmunir, skartgripir, armbandsúr og gjafavara. Gott tæ...
Bókhaldsþjónusta
Skattframtöl, bókhald, ársreikningar, vsk uppgjör & launauppgjör, stofnun félaga...
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi
Til sölu ljóðabréf frá Davíð Stefánssyni til vinar síns. 15 erindi ásamt áritaðr...
Skattframtalsgerð einstaklingar/minni fé
Tek að mér gerð skattframtala fyrir einstaklinga og minni félög. Almennt bókhal...