Einangruð og ósátt við heimaland sitt

Monica E. Witt. Greint var frá því nú í vikunni …
Monica E. Witt. Greint var frá því nú í vikunni að Witt hefði verið ákærð fyrir njósnir í þágu Írans. AFP

Þegar Monica E. Witt, fyrrverandi sérfræðingur i gagnnjósnum hjá leyniþjónustu flughers Bandaríkjanna, tók þátt í ráðstefnu sem snérist um að brjóta niður bandaríska menningu fannst henni hún loksins vera komin í hóp fólks sem var jafn gagnrýnið í garð heimalands hennar og hún sjálf.

Greint var frá því nú í vikunni að Witt hefði verið ákærð fyrir njósnir í þágu Írans. Fjórir íranskir ríkisborgarar voru einnig ákærðir. Er Witt gefið að sök að hafa veitt Írönum upplýsingar um verkefni á vegum bandaríska varnarmálaráðuneytisins og einnig á hún að hafa aðstoðað Írana við upplýsingaöflun um starfsmenn bandarískra leyniþjónustustofnana. 

Ráðstefnan sem Witt tók þátt í var haldin á lúxushóteli í Tehran árið 2013 og meðal ráðstefnugesta voru fræðimenn sem voru á jaðrinum, fólk sem afneitar helförinni og aðdáendur hryðjuverkamannsins Carlosar, sem þekktur er undir nafninu Sjakalinn.

Leið illa vegna voðaverka sem hún tók þátt í

„Hún sagði að hún hefði tekið þátt í hryllilegum stríðsglæpum með flughernum,“ hefur New York Times eftir Kevin Barrett, umdeildum fræðimanni í íslömskum fræðum. „Hún sagði að sér liði virkilega illa vegna þessa,“ segir Barrett sem átti ítarlegar samræður við Witt á ráðstefnunni.

Nokkrum mánuðum eftir ráðstefnuna, samkvæmt ákæru sem leynd var lyft af á miðvikudag, þá gerðist Witt liðhlaupi og tók að njósna fyrir írönsku leyniþjónustuna.  New York Times segir herþjónustuna hafa verið helstu ástæðu róttæknihæningar hennar, en hún hafi haldið áfram að áfram að þróast í þá átt er hún var í framhaldsnámi.

Bandaríska alríkislögreglan segist hafa  varað Witt við um það leyti sem hún útskrifaðist að íranska leyniþjónustan hefði augastað á henni. „Það voru engin viðvörunarmerki sem hvöttu til þess að yfirvöld væru vöruð við,“ segir Cory Ellis sem þekkti hana er þau voru saman í meistaranámi við George Washington háskólann. „Hún fór þó ekkert leynt með að hún væri ekki sátt við stefnu Bandaríkjanna í utanríkismálum.“

Bandarískar löggæslustofnanir og leyniþjónustustofnanir eru nú að takast á við afleiðingar þess sem þau segja vera „svik“ Witt, sem nú er talin dvelja í Íran.

New York Times hefur eftir fyrrverandi leyniþjónustumönnum að mál  Witt hafi valdið þjóðaröryggi Bandaríkjanna verulegum skaða, m.a. vegna þess að hún er grunuð um að hafa greint frá nöfnum gagnnjósnara, sem veittu Bandaríkjunum upplýsingar. Þá eru bandarísk yfirvöld sögð eiga erfitt með að skilja hvers vegna hún hafi gert þetta.

Þinghúsið í Tehran. Mynd úr safni.
Þinghúsið í Tehran. Mynd úr safni. AFP

Var ekki að þessu peninganna vegna

New York Times segir rannsókn á bakgrunni Witt og viðtöl við vini hennar og kunningja sýna að áhugi hennar á menningu Miðausturlanda og hafi gert hana að áhugaverðum kandídat fyrir andstæðinga bandarískra yfirvalda.

Rúmu ári áður en bandarísk yfirvöld segja hana hafa gerst njósnara þá fundaði hún með Marzieh Hashemi, blaðamanni frá Louisiana sem flutti til Íran og sem bandarísk stjórnvöld töldu sjá um að finna kandídata fyrir erlenda leyniþjónustu.

„Hún var ekki að gera þetta peninganna vegna,“ segir  Douglas H. Wise, sem var aðstoðarforstjóri leyniþjónustu varnarmálaráðuneytisins. „Á einhverjum tímapunkti breyttist hugmyndafræði hennar og hún samsamaði sig Persum.“

Á þeim tíma hafði hún eytt stórum hluta fullorðins ára sinna í skuggaheimi leyniþjónustustofnanna.

Var hálft ár í Írak

Witt fæddist í El Paso. Hún skráði sig í flugherinn nokkrum mánuðum eftir að hún varð átján ára, skömmu eftir dauða móður sinnar árið  1997. Hún var fljótt komin í áhöfn RC-135 njósnaflugvélar sem var full af könnunarbúnaði.

Hún var fyrst send til starfa í Miðausturlöndum árið 2002 og var þá í Sádi-Arabíu.  Fleiri ferðir fylgdu í kjölfarið og hún var m.a. tæpt hálft ár í Írak árið 2005. Árið 2008 yfirgaf hún flugherinn til að hefja háskólanám og starfaði síðar fyrir tvö verktakafyrirtæki sem starfa fyrir leyniþjónustuna áður en hún fór í framhaldsnám.

Connie Shields, nágranni Harry Witt föður Moniku, segir störf hennar fyrir leyniþjónustuna hafa verið lítið rædd í fjölskyldunni. „Ég held að Harry hafi ekki vitað of mikið um hvað hún var að gera,“ segir hún.

Talaði um drónaárásir og grimmdarverk gegn börnum

Bekkjarfélagar hennar í George Washington háskólanum segja hana hins vegar hafa augljóslega farið illa út úr Íraksdvölinni. „Hún talaði um það hvernig hún gæti ekki sofið á nóttunni og að allt það sem hún sá væri hluti af því,“ segir Ellis. Hann segir hana hafa minnst á drónaárásir, dráp án dóms og laga og grimmdarverk gegn börnum. Hluti sem hún sagði félaga sína í hernum stæra sig af. Hún hafi virkað kvalin vegna þess sem hún upplifði sem „veruleg vanhæfni“ yfirmanna sinna í herferðum sínum erlendis.

New York Times segir fjármál Witt hafa verið í miklum ólestri og á einum tímapunkti var hún jafnvel heimilislaus.

Samnemar hennar segja Witt hafa lýst í samtölum við þá að henni fyndist hún ekki passa í hópinn. Áhugi hennar á Íran var þó augljós og hún gat bjargað sér á farsí, en tungumálið byrjaði hún að læra þegar hún var í hernum.  Þá hafði hún einnig öðlast áhuga á íslamstrú er hún var í hernum og tók að stúdera trúarbrögðin er hún var í Íran.

Það var svo árið 2012, þegar hún kom til baka eftir ferð á ráðstefnu í Tehran, sem fjallaði um hvernig bandarískur kvikmyndaiðnaður ófrægir íranska menningu, sem Witt breyttist. Allt í einu var hún tekin að bera blæju, tilkynnti samnemendum að hún hefði meðtekið íslamstrú og var virkilega spennt er hún talaði um Íran.

„Mér fannst hún grunsamleg,“ segir Nader Talebzadeh einn skipuleggjenda ráðstefnunnar sem Witt fór á. „Hún sagðist hafa tekið íslamstrú, en mér fannst hún ekki vera einlæg.“

Witt varði svo mastersritgerð sína er hún snéri aftur til Washington og það gekk ekki vel. Ellis minnist þess að rök Witt hafi hljómað eins og „ástarbréf til Íran“. Fræðimenn deildarinnar hafi líka gagnrýnt hana harðlega er hún fullyrti að Íran myndi aðeins nota kjarnorkuvopn í sjálfsvörn og því hafi Witt brugðist illa við.

„Hún var næstum móðguð yfir að hugmyndin um friðelskandi Íran gæti verið dregin í efa. Hún var augljóslega í uppnámi.“ Þetta var á sama tíma og fulltrúar FBI vöruðu Witt við áhuga írönsku leyniþjónustunnar á henni. Hún gaf lítið fyrir þær áhyggjur og sagði að ef hún snéri aftur til Íran, þá myndi hún neita að veita þeim nokkrar upplýsingar um starf sitt fyrir flugherinn.

„Ég er á leiðinni heim“

Ári síðar var hún svo aftur mætt á ráðstefnu í Tehran og sagði þá í viðtali við íranska fréttaveitu að hún hefði byrjað að stúdera íslam til að skilja betur veru Bandaríkjahers í Miðausturlöndum. „Ég taldi það geta hjálpað mér að mæta óvininum,“ sagði hún. Fljótt hafi hún hins vegar látið heillast. „Ég varð svo áhugasöm að ég las kóraninn á hverju kvöldi. Ég átti mig þá að þrátt fyrir það sem bandaríski herinn sagði okkur að þá er íslamstrú ekki ofbeldisfull trúarbrögð.“

Þá fundaði hún með fulltrúum varðsveita írönsku byltingarinnar og sást gagnrýna bandarísk stjórnvöld.  Mike Gravel, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður demókrata, sem var á ráðstefnunni og hitti þessa sömu fulltrúa segir þá vel færa um að finna viðkvæma einstaklinga og nýta sér þá.

Witt hafði hins vegar ekki mikil áhrif á alla sem hittu hana í Íran. „Þegar FBI hafði samband við mig, þá mundi ég ekki einu sinni hver hún var,“ segir Sean Stone, sonur kvikmyndagerðamannsins Oliver Stone sem einnig var á staðnum.

Þremur mánuðum eftir ráðstefnuna 2013 sendi hún írönskum yfirmanni sínum Hashemi, sem hún hafði unnið áróðursmyndband fyrir í Bandaríkjunum, skilaboð. „Ég er að stimpla mig út,“ skrifaði hún og bætti við broskalli. „Ég er á leiðinni heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert